Glæsimark Hildigunnar gerði gæfumuninn

Laufey Harpa Halldórsdóttir og Breukelen Woodard eigast við í dag.
Laufey Harpa Halldórsdóttir og Breukelen Woodard eigast við í dag. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

FH gerði frábæra ferð á Sauðárkrók og hafði þar betur gegn Tindastóli, 1:0, í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði sigurmark FH-inga með glæsilegu skoti snemma í síðari hálfleik.

Bæði lið fengu mikinn fjölda færa í opnum og skemmtilegum leik og var mesta furða að mörkin skildu ekki hafa orðið fleiri.

Illskiljanlegt markaleysi

Fyrri hálfleikur var afar líflegur þar sem bæði lið fengu fjölda góðra færa og nokkur dauðafæri.

Jordyn Rhodes, nýr leikmaður Tindastóls frá Bandaríkjunum, fékk það fyrsta eftir stundarfjórðungs leik þegar skalli hennar eftir hornspyrnu Elísu Bríetar Björnsdóttur frá vinstri fór í jörðina og þaðan í þverslána.

Selma Sól Sigurjónsdóttir í liði FH fékk næsta dauðafæri um miðjan hálfleikinn þegar hún skaut yfir af markteig eftir glæsilegan sprett og góða fyrirgjöf Hildigunnar Ýrar Benediktsdóttur af vinstri kantinum.

Snædís María Jörundsdóttir fékk besta færi fyrri hálfleiksins eftir rúmlega hálftíma leik þegar sending Gwendolyn Mummert í vörn Tindastóls til baka misheppnaðist herfilega, Snædís María komst inn í hana og skaut við vítateigslínuna en Monica Wilhelm í marki Stólanna varði frábærlega með fótunum.

Skömmu síðar, á 34. mínútu, komst Mummert nálægt því að skora þegar hún var ein á auðum sjó vinstra megin í vítateignum, fékk boltann frá Elísu Bríeti en skotið af stuttu færi fór beint á Herdísi Höllu Guðbjartsdóttur í marki FH.

Snædís María var svo aftur nálægt því að skora undir lok hálfleiksins þegar Breukelen Woodard gerði vel vinstra megin í vítateignum, gaf fyrir á Snædísi Maríu sem var fyrst á boltann við markteiginn en skotið hafnaði ofan á þaknetinu.

Því var það með nokkrum ólíkindum að markalaust var þegar flautað var til leikhlés.

Glæsimark Hildigunnar Ýrar

Í síðari hálfleik leið ekki á löngu þar til fyrsta markið og sigurmark leiksins leit loks dagsins ljós. Kom það á 54. mínútu.

FH-ingar léku þá með boltann í vítateig Stólanna, Snædís María kom honum á Woodard sem lagði boltann út á Hildigunni Ýr Benediktsdóttur vinstra megin í teignum, hún tók eina snertingu og þrumaði boltanum svo stórglæsilega upp í samskeytin fjær.

Eftir markið gerði Tindastóll sig líklegan þar sem Birgitta Rún Finnbogadóttir fékk í tvígang góð færi hægra megin í vítateignum en í bæði skiptin varði Herdís Halla vel.

Þess á milli hafnaði lúmskt skot Gabrielle Johnson af mjög löngu færi ofan á þverslánni eftir tæplega klukkutíma leik.

Gífurleg pressa Stólanna undir lokin

Eftir síðara færi Birgittu Rúnar gerðist fátt markvert í um 20 mínútur, eða þar til skalli Rhodes eftir fyrirgjöf Birgittu Rúnar fór framhjá sex mínútum fyrir leikslok.

Rhodes fékk svo annað og enn betra færi tveimur mínútum fyrir leikslok þegar Laufey Harpa Halldórsdóttir átti hnitmiðaða fyrirgjöf frá hægri í kjölfar hornspyrnu, Rhodes var alein í vítateignum en skalli hennar úr sannkölluðu dauðafæri fór framhjá.

Á 90. mínútu átti Mummert góðan sprett vinstra megin í vítateignum, gaf fyrir á Maríu Dögg Jóhannesdóttur sem tók viðstöðulaust skot úr sannkölluðu dauðafæri í teignum en enn á ný fór skotið framhjá.

FH tókst hins vegar að lifa þetta áhlaup heimakvenna af og fer með öll þrjú stigin heim í Hafnarfjörðinn í farteskinu.

Tindastóll 0:1 FH opna loka
90. mín. María Dögg Jóhannesdóttir (Tindastóll) á skot framhjá Dauðafæri! Mummert með laglegan sprett vinstra megin og kemur honum fyrir á Maríu Dögg sem skýtur viðstöðulaust en framhjá!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert