Sterkur útisigur í fyrsta leik nýliðanna

Víkingar fagna fyrsta marki leiksins.
Víkingar fagna fyrsta marki leiksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýliðar Víkings úr Reykjavík unnu í kvöld 2:1-útisigur á Stjörnunni í 1. umferð Bestu deild kvenna í fótbolta

Víkingur byrjaði af krafti og það tók Sigdísi Evu Bárðardóttur aðeins sjö mínútur að skora fyrsta mark nýliðanna í deild þeirra bestu og sitt fyrsta mark í efstu deild. Hún skilaði boltanum þá glæsilega í stöngina og inn með hnitmiðuðu skoti utan teigs.

Stjörnukonur tóku völdin eftir markið og lá markið í loftinu næstu mínútur. Hannah Sharts og Sóley Edda Ingadóttir fengu báðar fín tækifæri til að jafna en Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir í marki Víkings varði vel.

Hún kom þó engum vörnum við á 20. mínútu þegar Henríetta Ágústsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild með fallegri afgreiðslu í teignum upp í þaknetið. Hulda Hrund Arnarsdóttir fékk tvö fín færi til að koma Stjörnunni yfir í kjölfarið en nýtti þau ekki. Staðan í hálfleik var því 1:1.

Víkingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og eftir fimm mínútur átti Emma Steinsen Jónsdóttir góða sendingu fram völlinn á Hafdísi Báru Höskuldsdóttur sem lék á einn varnarmann, skoraði af öryggi og kom Víkingi aftur yfir.

Tveimur mínútum síðar slapp Sigdís Eva í gegnum vörn Stjörnunnar en Erin McLeod í marki Stjörnunnar sá þá við henni.

Eftir það róaðist leikurinn nokkuð og liðunum gekk illa að skapa sér færi. Víkingsliðið varðist vel og Stjörnukonur áttu í miklum erfiðleikum með að komast í álitlegar stöður. Sigldu bikarmeistararnir því sterkum sigri í höfn.

Stjarnan 1:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. Lítið flæði í leiknum undanfarnar mínútur enda endalaust af skiptignum. Nýliðarnir hársbreidd frá sigri í fyrsta leik.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert