Breiðablik vann sinn fyrsta leik í Bestu deild kvenna í knattspyrnu, 3:0, gegn Keflavík á Kópavogsvelli í kvöld.
Breiðablik er þar með í toppsæti deildarinnar enda með bestu markatöluna eftir fyrsta leik. Keflavík er þar með neðst.
Fyrri hálfleikurinn var líflegur og áttu bæði lið góð upphlaup. Gestirnir frá Keflavík voru óhræddir við að sækja en flest tækifæri þeirra enduðu með hornspyrnu.
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir kom Breiðabliki yfir á 20. mínútu leiksins. Þá átti bakvörðurinn Anna Nurmi sendingu bakvið sig yfir hálfan völlinn, beint á Vigdísi sem var skyndilega ein í gegn. Afgreiddi hún boltann í netið framhjá Veru Varis, 1:0, sem var staðan að fyrri hálfleik loknum.
Vigdís Lilja bætti við sínu öðru marki í upphafi síðari hálfleiksins er hún stýrði fyrirgjöf Öglu Maríu Albertsdóttur í netið, 2:0, og Blikakonur í góðum málum.
Agla María bætti við þriðja marki Breiðabliks á 70. mínútu er hún stangaði fyrirgjöf Karitas Tómasdóttur örugglega í netið, 3:0, og úrslitin gott sem ráðin.
Breiðablik mætir Tindastóli á Sauðárkróki á laugardaginn kemur. Keflavík fær Stjörnuna í heimsókn samdægurs.