KA er komið í 16-liða úrslit bikarkeppni karla í fótbolta eftir dramatískan sigur á ÍR úr 1. deild á heimavelli sínum á Akureyri í dag, 2:1. Réðust úrslitin í framlengingu.
Harley Willard kom KA í forystu á 47. mínútu en Bergvin Fannar Helgason skoraði jöfnunarmark á lokamínútu venjulegs leiktíma og því varð að framlengja.
Stefndi allt í vítakeppni þegar Daníel Hafsteinsson skoraði huggulegt sigurmark á 119. mínútu og þar við sat.