Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var sáttur með sína menn eftir útisigur á KR, 3:2, í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
„Ég er bara ótrúlega ánægður með frammistöðu míns liðs í dag. Strákarnir lögðu mikla vinnu í þennan leik, voru grjótharðir, agaðir og beinskeyttir þess á milli. Þeir uppskáru að mínu mati mjög sanngjarnan sigur þó hann hafi kannski verið full tæpur í lokin.“
Lokamínútur leiksins voru æsispennandi en KR minnkaði muninn í 2:1 á 86. mínútu. Skömmu síðar komust Blikar í 3:1 áður en KR minnkaði muninn aftur úr vítaspyrnu, nánast í næstu sókn.
„Við erum með 2:0-forystu og líður ágætlega með það. Á þeim tímapunkti held ég að þeir hafi bara ekki skapað færi í leiknum. Svo förum við eiginlega strax í 3:1 eftir að þeir minnka muninn.
En svona eftir að Wöhler henti sér niður í teignum urðu þetta auðvitað óþægilegar lokamínútur, ég get alveg viðurkennt það.“
Leikurinn var sá fyrsti sem fer fram á grasi í sumar en völlurinn á Meistaravöllum var ekki frábær í kvöld. Halldór segir að það hafi klárlega áhrif á hvernig Blikar lögðu upp leikinn.
„Ég held að það hafi nú alveg sést á leik Breiðabliks-liðsins í dag að á ákveðnum svæðum á vellinum kusum við það að fara langt. Við vorum samt ekkert að setja boltann bara einhvert, við unnum mikið í kringum Benjamin Stokke sem stóð sig frábærlega og hélt miðvörðum KR svo sannarlega við efnið. Þaðan reyndum við að fara út á Aron og Jason, og þegar KR-ingar urðu aðeins gisnari reyndum við að taka boltann niður á ákveðnum svæðum og spila honum. Mér fannst við gera það ágætlega líka.
Það sem við gerðum mjög vel í fyrri hálfleik, þó við höfum oft sent fleiri sendingar á milli okkar, var að fá þrjú eða fjögur mjög góð færi og vorum klaufar að fara ekki inn í hálfleikinn með betri stöðu. Svo gerum við vel að komast yfir eftir góða sókn og mér fannst þetta bara sanngjarn sigur, ég er mjög ánægður með frammistöðu liðsins.“
KR-ingar ákváðu að spila leikinn á sínum heimavelli þrátt fyrir að færa mætti rök fyrir því að hann hafi kannski ekki alveg verið tilbúinn. Síðasta heimaleik spilaði liðið í Laugardal á heimavelli Þróttar.
„Það er alls enginn pirringur hjá okkur út í KR, bara fullkominn skilningur á því að þeir vilji spila á sínum heimavelli. Hér er búið að vera húllumhæ síðan í hádeginu, geggjað veður og fullur völlur svo ég skil þá bara ótrúlega vel.
Hins vegar er þetta held ég fjórða árið sem við erum að byrja mótið svona svakalega snemma. KSÍ eða ÍTF hafa ekki gert neinar ráðstafanir til að aðlaga mótið að því að við erum að byrja í byrjun apríl. Það er verið að spila þetta í einhverjum æfingahöllum þar sem eru örfáir metrar til lofts og á svona grasvöllum. Þetta er ekki sú söluvara sem við viljum að deildin sé.
Svo aftur á móti færðu svona leik eins og í dag sem er auðvitað frábær og skemmtilegur fyrir áhorfendur en það er skrítið að vera búnir að æfa í allan vetur við frábærar aðstæður, spila boltanum með jörðinni og allt það, en þurfa síðan að breyta svona miklu inni í miðju móti.
Ég vil samt taka fram aftur að ég skil KR-ingana mjög vel og ekkert út á þeirra ákvörðun að setja, ég hefði tekið hana sjálfur líka.“
Það gekk á ýmsu undir lok leiks en þjálfarar beggja liða fengu m.a. báðir gult spjald fyrir mótmæli. Þá var einnig mikill hiti í leikmönnum innan vallar.
„Ég veit ekki hvort þetta sé eitthvað sem kemur að ofan en mér fannst dómararnir í þessum leik, og ekki bara í okkar leikjum heldur bara almennt í deildinni hingað til, vera rosalega mikið að pæla í hversu margir standa á bekknum eða hvað menn eru að segja. Manni finnst þeir bara gleyma að dæma leikinn og það sem skiptir máli. Ef það er verið að setja þá í þessa stöðu, að geta ekki einbeitt sér að leiknum og því sem er að gerast á vellinum er það náttúrlega alvarlegt mál.
Mér fannst þeir ekki hafa góða stjórn á þessu, mér fannst þeir missa af stórum atvikum þar sem þeir voru að fylgjast með einhverju allt öðru sem skiptir engu máli í stóra samhenginu.“
Alexander Helgi Sigurðarson fór meiddur af velli hjá Blikum í leiknum. Halldór segist vona að það sé ekki of alvarlegt.
„Hann fékk í lærið. Ég vonast til þess að við höfum náð að koma honum útaf áður en þetta varð of vont. Vonandi eru þetta ekki meira en nokkrir dagar en það kemur í ljós á næstu dögum.“