FH gerði góða ferð á Skagann og vann 2:1-útisigur á ÍA í 4. umferð Bestu deildar karla í fótbolta en leikið var í Akraneshöllinni. Með sigrinum fór FH upp í níu stig og annað sæti, en ÍA er enn með sex stig.
FH byrjaði betur, hélt boltanum vel innan síns liðs á vallarhelmingi ÍA og var ógnandi. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 13. mínútu. ´
Kjartan Kári Halldórsson gerði sér þá lítið fyrir og skoraði beint úr aukaspyrnu af um 30 metra færi. Árni Marinó Einarsson átti að gera betur í markinu, þrátt fyrir að spyrnan hafi verið föst.
Næstu mínútur voru FH-ingar líklegri til að bæta við og áttu Kjartan Kári og Björn Daníel Sverrisson m.a. tilraunir en náðu ekki að reyna á Árna Marinó.
Það kom því gegn gangi leiksins þegar Viktor Jónsson jafnaði á 42. mínútu með skalla af stuttu færi eftir glæsilega fyrirgjöf frá Jóni Gísla Eyland Gíslasyni. Markið gaf Skagamönnum aukinn kraft, en þau urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og staðan jöfn, 1:1, fyrir seinni hálfleikinn.
Logi Hrafn Róbertsson breytti þeirri stöðu í 2:1 fyrir FH á 55. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs í bláhornið fjær eftir að Skagamenn náðu ekki að hreinsa almennilega eftir fyrirgjöf.
FH var sterkari aðilinn næstu mínútur og mun líklegra til að skora en ÍA að jafna metin. Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn snerist það við og ÍA fór að hóta jöfnunarmarki.
Steinar Þorsteinsson átti skot rétt framhjá korteri fyrir leikslok og Viktor Jónsson og Hinrik Harðarson fengu einnig góð færi en í báðum tilvikum varði Sindri Kristinn Ólafsson vel í marki FH.
Ísak Óli Ólafsson varnarmaður FH fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á lokamínútu venjulegs leiktíma, áður en sex mínútum var bætt við seinni hálfleikinn. ÍA tókst ekki að skora í lokin, en Oliver Stefánsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir mótmæli og luku bæði lið leik með tíu leikmenn.