„Mér fannst þetta geggjaður leikur hjá liðinu,“ sagði Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, sóknarmaður Breiðabliks, eftir 3:0-sigur á FH í 3. umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu í kvöld.
„Við vorum frekar rólegar á boltanum, annað en í síðustu leikjum þar sem við vorum í smá ströggli. Þetta var geggjaður leikur og verðskuldaður 3:0-sigur,“ bætti Vigdís Lilja við í samtali við mbl.is eftir leik.
Vigdís Lilja skoraði tvívegis í leiknum og er nú næstmarkahæst í deildinni með fimm mörk í aðeins þremur leikjum. Undanfarin ár hefur hún meira verið notuð á köntunum og á miðjunni en á þessu tímabili hefur hún leikið sem annar af tveimur sóknarmönnum Breiðabliks í 4-4-2 leikkerfi liðsins.
Þar nýtur Vigdís Lilja sín vel.
„Já, mér finnst þetta bara geggjað. Það er geggjað að spila frammi og ég er með frábæra miðju og vörn fyrir aftan mig. Það er gaman að geta fengið boltann í fætur og inn fyrir,“ sagði hún.
Þrátt fyrir að fara vel af stað í markaskorun hefur Vigdís Lilja ekki sett sér neitt markmið þegar kemur að fjölda marka á tímabilinu.
„Nei, nei, ekkert þannig. Ég vil bara gera mitt besta og ná líka inn stoðsendingum og hjálpa liðinu að vinna alla leiki,“ sagði hún.
Breiðablik er á toppnum með fullt hús stiga líkt og Íslandsmeistarar Vals í öðru sæti.
„Ég held að þetta verði rosalega spennandi deild. Mér finnst vera mjög mörg góð lið í henni. Ég held að þetta verði geggjuð toppbarátta í sumar,“ sagði Vigdís Lilja að lokum í samtali við mbl.is.