Fram fer vægast sagt vel af stað í 1. deild kvenna í fótbolta en liðið vann risasigur á ÍR, 8:2, í fyrstu umferðinni í kvöld. Leikið var á heimavelli Fram í Úlfarsárdal.
Murielle Tiernan, sem hefur undanfarin ár verið einn besti leikmaður Tindastóls, byrjar vel með Fram því hún skoraði þrennu.
Alda Ólafsdóttir skoraði tvö mörk og þær Emma Björt Arnarsdóttir og Írena Björk Gestdóttir komust einnig á blað. Eitt markanna var sjálfsmark.
Lovísa Guðrún Einarsdóttir skoraði fyrra mark ÍR er hún kom liðinu í 1:0. Berta Sóley Sigtryggsdóttir minnkaði muninn svo í 6:2.
Leikur ÍA og Grindavíkur var öllu rólegri, en þar skoraði Erna Björt Elíasdóttir sigurmark Skagakvenna á 43. mínútu í 1:0-heimasigri.