Eysteinn Pétur Lárusson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ.
Þetta tilkynnti sambandið á heimasíðu sinni í dag en hann tekur við starfinu af Klöru Bjartmarz sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri sambandsins í lok febrúar á þessu ári.
Eysteinn mun hefja störf hjá KSÍ hinn 1. september en þangað til mun Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála, sinna starfinu líkt og hann hefur gert frá því Klara lét af störfum.
„Eysteinn Pétur kemur til KSÍ frá Breiðabliki þar sem hann var framkvæmdastjóri aðalstjórnar og áður knattspyrnudeildar félagsins í rúm 10 ár,“ segir í tilkynningu KSÍ.
„Breiðablik rekur 12 deildir sem samanstanda af rúmlega 3.000 iðkendum. Áður en Eysteinn fór til Breiðabliks starfaði hann sem framkvæmdastjóri og þjálfari knattspyrnudeildar hjá Hvöt á Blönduósi og Þrótti í Reykjavík þar sem hann var einnig íþróttastjóri.
Eysteinn hefur því víðtæka reynslu á sviði íþrótta og knattspyrnu.
Eysteinn er með B.Ed.-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og MLM-gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hann er giftur Brynhildi Olgu Haraldsdóttur og eiga þau þrjá syni,“ segir í tilkynningunni.