Framherji er metinn út frá mörkum

Benjamin Stokke skoraði fyrir Breiðablik í kvöld.
Benjamin Stokke skoraði fyrir Breiðablik í kvöld. Ljósmynd/Breiðablik

„Sem framherji ertu metinn út frá mörkum sem þú skorar en held að ég taki líka þátt í spilinu, meira en ég gerði í Noregi, svo ég hef held ég sýnt að ég leggi mitt af mörkum - jú, tvö mörk og eitt rangstöðumark en ég tel það líka,“  sagði Benjamin Stokke léttur í lund en hann skoraði síðasta mark Breiðabliks í 3:0 sigri á Fylki þegar liðin mættust í 6. umferð efstu deildar karla í Árbænum í kvöld.

Norsarinn var ánægður með að sleppa við að fá á sig sig mark og fyrst mark Blika hefði snúið leiknum. „Við fengum ekki á okkur mark í fyrri hálfleik og fengum sjálfir ekki mikið af færum svo Fylkismenn hefðu alveg getað skorað fyrst.  Mér fannst þetta erfitt hjá okkur í byrjun enda Fylkir erfitt lið, sem fékk sín færi með ákveðnum sóknum svo þetta var erfiður leikur en við skorum svo fyrsta markið okkar og eftir næsta mark fórum við að ná stjórn á leiknum,“  sagði Benjamin eftir leikinn.

Ekki lesið yfir okkur í hálfleik

 Jason Daði Svanþórsson átti frábæran leik fyrir Breiðablik, hrelldi vörn Fylkis og lagði tvö af mörk Blika, sem voru alls ekki sannfærandi fyrir hlé en hann sagði liðið hafa átakalaust skipulagt sig í hálfleik.   

„Nei, það var alls ekki lesið yfir okkur í hálfleik, bara farið aðeins yfir hvernig við getum pressað þá betur og mér fannst við gera það svo við vorum flottir í seinni hálfleik. Við vorum frekar eftir á pressunni í fyrri hálfleik en náum svo að skora mark og mörk breyta leikjum, sem var frábært fyrir okkur og í seinni hálfleik vorum við flottir og náðum við stýra pressunni betur auk þess að nýta færin okkar aðeins betur. Við náðum okkur betur á strik með að fara með forystu í hálfleik, alltaf betra að vera með eitt-núll þá og þetta var þá líka erfiðara fyrir Fylkismenn,“ sagði Jason Daði eftir leikinn.

Með sigrinum náði Breiðablik upp í 2. sæti deildarinnar með 12 stig, þremur minna en Víkingar í efsta sætinu en jafnmörg og FH, Blikar hafa aðeins betri markatölu en FH en Jason Daði segir það ekki efst í huga. „Okkur skiptir ekki máli einmitt núna hvernig staðan í deildinni lýtur út, við verðum bara að safna stigum og sjá hvert það leiðir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert