HK vann í Vesturbænum - tvö rauð á KR

Atli Hrafn Andrason úr HK í baráttu við Moutaz Neffati …
Atli Hrafn Andrason úr HK í baráttu við Moutaz Neffati úr KR í dag. mbl.is/Óttar

HK vann óvæntan sigur á KR, 2:1, þegar liðin mættust í sjöttu umferð Bestu deildar karla á Meistaravöllum í dag.

KR-ingar misstu tvo menn af velli með rautt spjald í síðari hálfleiknum, eftir að Atli Þór Jónasson og Arnþór Ari Atlason höfðu komið HK í 2:0. Atli Sigurjónsson minnaði muninn fyrir KR-ingar á meðan þeir voru tíu.

KR og HK eru þar með jöfn með sjö stig hvort í áttunda og níunda sæti deildarinnar. Fjórði leikur KR í röð án sigurs en HK hefur nú unnið tvo í röð.

Leikurinn var í jafnvægi fyrstu 20 mínúturnar og HK-ingar heldur meira með boltann án þess að umtalsverð marktækifæri litu dagsins ljós. Arnar Freyr Ólafsson í marki HK varði af öryggi tvö skot KR-inga, frá Eyþóri Aroni Wöhler og Benoný Breka Andréssyni.

KR-ingar náðu síðan nokkrum tökum á leiknum og sóttu talsvert eftir því sem leið á hálfleikinn. Marktækifæri létu þó á sér standa en George Nunn var nærri því að skora fyrir HK af 30 metra færi þegar hann skaut yfir Sigurpál Sören Ingólfsson markvörð KR en einnig rétt yfir þverslána.

HK náði forystunni á 38. mínútu og af hálfu KR-inga var markið afar slysalegt. Finnur Tómas Pálmason ætlaði að skalla til baka á Sigurpál markvörð en boltinn fór yfir hann og Atli Þór Jónasson framherji HK hafði betur í kapphlaupi við Sigurpál og kom boltanum yfir línuna, 1:0 fyrir HK.

Atli meiddist í atganginum og varð að fara af velli strax eftir markið.

KR-ingar gerðu harða hríð að marki HK í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Ægir Jarl Jónasson átti þá skot í þverslá og annað rétt framhjá marki HK en Kópavogsliðið fór inn í leikhléið með eins marks forystu.

KR-ingar sóttu stíft frá byrjun síðari hálfleiks. Bestu tilraun þeirra á upphafskaflanum átti Ægir Jarl Jónasson á 56. mínútu, hörkuskot af 20 metra færi og rétt yfir þverslána.

Leikurinn jafnaðist á ný og á 62. mínútu var Arnþór Ari Atlason í góðu færi á markteig en náði aðeins lausum skalla sem Sigurpáll varði örugglega.

Arnþór kom hins vegar HK í 2:0 á 65. mínútu. Leifur Andri Leifsson sendi boltann inn í vítateiginn vinstra megin og eftir skalla Atla Hrafns Arnarsonar fyrir markið skoraði Arnþór af markteignum. HK komið tveimur mörkum yfir.

Og annað áfall reið yfir KR-inga á 70. mínútu þegar Kristján Flóki Finnbogason fékk rauða spjaldið fyrir að brjóta á Leifi Andra Leifssyni rétt fyrir utan vítateig HK.

HK fékk tvö góð færi í sömu sókninni til að komast í 3:0 á 75. mínútu. Varnarmaður komst fyrir skot Hákons Inga Jónssonar og Sigurpáll varði naumlega frá Atla Arnarsyni í kjölfarið.

Arnar Freyr í marki HK varði úr dauðafæri Eyþórs Arons Wöhlers mínútu síðar og svo kom mark frá KR á 78. mínútu. Atli Sigurjónsson tók hornspyrnu frá hægri og skoraði beint úr henni, 2:1.

Sigurpáll hélt KR inni i leiknum með því að verja mjög vel frá Arnþóri Atla og síðan Atla Arnarsyni með mínútu millibili.

En svo dró aftur til tíðinda á 82. mínútu þegar KR-ingurinn Moutaz Neffati fékk sitt annað gula spjald og var rekinn af velli. KR-ingar voru þar með orðnir níu gegn ellefu fyrir lokamínútur leiksins.

HK nýtti ekki góðar stöður til að skora þriðja markið gegn fáliðuðum KR-ingum sem sjálfir lögðu allt í sölurnar til að jafna, tveimur mönnum færri.

Engu munaði að KR jafnaði metin því Theódór Elmar Bjarnason átti magnað skot sem Arnar Freyr varði glæsilega og Benoný Breki átti skalla sem Arnar varði.

Hákon Ingi Jónsson fékk síðan algjört dauðafæri til að skora þriðja mark HK en hann hitti ekki mark KR af markteig eftir góðan undirbúning George Nunn.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KR 1:2 HK opna loka
90. mín. KR fær hornspyrnu Vel gert hjá KR-ingum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert