Hólmfríður Magnúsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, kom aftur inn á völlinn í kvöld eftir tveggja ára hlé þegar hún lék með Selfyssingum gegn Fram í 1. deild kvenna á Framvellinum í Úlfarsárdal.
Hólmfríður, ein leikjahæsta knattspyrnukona Íslandssögunnar og ein af þeim leikjahæstu með íslenska landsliðinu, kom inn á sem varamaður á 76. mínútu en viðureign liðanna endaði 2:2.
Telma Steindórsdóttir kom Fram yfir á 7. mínútu en Embla Dís Gunnarsdóttir og Guðrún Þóra Geirsdóttir svöruðu fyrir Selfyssinga sem voru yfir í hálfleik, 2:1.
Murielle Tiernan jafnaði fyrir Fram á 62. mínútu og lokatölur því 2:2.
Fram er efst í deildinni með 4 stig eftir tvær umferðir en Selfoss hefur gert jafntefli í báðum sínum leikjum og er með 2 stig.