„Það vantaði einhvern í vörnina“

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, lengst til vinstri er Þór/KA hóf leik …
Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, lengst til vinstri er Þór/KA hóf leik í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Innbæingurinn Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir fór á kostum í þriggja manna varnarlínu Þórs/KA í kvöld. Þór/KA vann þá sannfærandi 4:0-sigur á Keflavík í Bestu-deild kvenna í 5. umferðinni. Leikið var í Boganum á Akureyri og kom Kimberley eldhress en einbeitt í viðtal eftir leik.

„Þetta var góður sigur hjá okkur í dag. Við vorum með yfirhöndina stærstan hluta leiksins enda vel undirbúnar. Við vorum klárar í alvöru leik. Keflavík hefur verið að spila fína leiki þótt stigin vanti hjá þeim. Það var ekkert öðruvísi að fara í þennan leik. Stefnan bara sett á góðan leik og sigur. Ég held að við höfum bara sýnt að við vorum meira tilbúnar en þær.“

Orð að sönnu hjá Kimberley. Þór/KA tók langar rispur í leiknum þar sem liðið var nánast í stanslausri sókn en svo datt sóknarþunginn niður á köflum.

„Það vantaði almennilega sóknarlotu eftir fyrsta markið okkar. Við vorum alveg með boltann en það vantaði fleiri færi og mörk. Svo kom þetta bara í seinni hálfleik og þar hefðum við vel getað bætt við mörkum.“

Kimberley er að upplagi miðjumaður en hefur þurft að leysa allskyns stöður á þessu tímabili. Hún hefur spilað í hægri bakverði en var í kvöld einn þriggja miðvarða í varnarafbrigði sem Þór/KA greip til vegna meiðsla fastamanna í vörn liðsins. Lék hún þar við hvurn sinn fingur og leit út eins og 100 leikja manneskja í þeirri stöðu. Var hún spurð um þessar stöðuveitingar sínar.

„Ég er að finna mig ágætlega þarna í vörninni. Það vantaði einhvern í vörnina og ég var bara tilbúin að taka þetta að mér. Það er skemmtilegt að takast á við nýja stöðu Þetta er öðruvísi í þriggja manna varnarlínunni en ekki svo ólíkt bakverðinum.

Við vitum það líka að það þýðir ekkert að setja einhverja vitleysinga í vörnina. Það þarf fulla einbeitingu allan leikinn og það er lítið rúm til að gleyma sér eða gera mistök. Þannig að Jói þjálfari treystir þér best í þetta hlutverk.

„Já og ég er mjög þakklát fyrir það.“

Hvað sérðu fyrir þér svona í næstu leikjum. Það eru komnir fjórir sigrar hjá ykkur í röð. Liðið er vel skipað og góðir leikmenn á bekknum eða utan hóps. Það er góð holning á liðinu og leikmenn virðast líka í afar góðu formi.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að halda áfram og vera með hugann við þetta. Við getum ekki farið að hugsa að við séum komin með eitthvað. Við verðum bara að vinna fyrir öllu og leggja okkur fram í hvern einasta leik. Þetta er bara flott lið og örugglega hausverkur fyrir þjálfarann að velja hópinn fyrir leik. Við æfðum vel og settum hjarta og gleði í allt undirbúningstímabilið. Við viljum bæta okkur sem einstaklinga og sem lið og það er bara ein leið til þess. Maður þarf að vinna fyrir öllu“ sagði þessi heilsteypti leikmaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert