Breiðablik er komið í toppsæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á ný eftir góðan sigur á Fylki, 2:0, í Árbænum í kvöld.
Blikaliðið er því enn með fullt hús stiga eða 15 eftir fimm umferðir, jafnmörg stig og Valur en betri markatölur. Nýliðar Fylkis eru þá með fimm stig í áttunda sæti.
Breiðablik var með öll tök á fyrri hálfleiknum en Fylkisliðið varðist vel og hleypti Kópavogsliðinu ekki í mörg góð tækifæri.
Sóknarmaðurinn Birta Georgsdóttir braut hins vegar ísinn fyrir Blikaliðið á 41. mínútu er hún fylgdi eftir skalla Öglu Maríu Albertsdóttur sem var varinn, 1:0.
Fylkisliðið vaknaði aðeins til lífsins í seinni hálfleik en á 55. mínútu fékk Breiðablik víti. Þá fékk fyrirliðinn Eva Rut Ásþórsdóttir boltann í höndina og Þórður Þorsteinn Þórðarson dómari benti á punktinn.
Á hann steig Agla María Albertsdóttir og skoraði af öryggi, 2:0.
Fylkir heimsækir Þrótt úr Reykjavík í 16-liða úrslitum bikarsins næsta sunnudag. Breiðablik heimsækir Stjörnuna samdægurs.
Næsti leikur Fylkis í deildinni er gegn Stjörnunni í Garðabænum en Breiðablik fær Val í heimsókn í stórleik umferðarinnar.