Fær greitt vegna árangurs eftir hans tíma

Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfari KA og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar …
Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfari KA og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KA. Samsett mynd

Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfari meistaraflokks KA í fótbolta, fær greitt vegna árangurs KA í Evrópukeppni, sem náðist eftir að hann sagði skilið við félagið.

Knattspyrnudeild KA hefur verið dæmd til að greiða Arnari tæpar 8,8 milljónir króna auk dráttarvaxta, frá 5. nóvember 2023 til greiðsludags, eða einum mánuði frá því að Arnar krafði KA um bónusgreiðslu samkvæmt niðurlagsákvæði í samningi hans við félagið.

Héraðsdómur Norðurlands eystra kemst að þeirri niðurstöðu að KA beri að greiða Arnari sem nemur 55 þúsund evrum eða 10% af árangurstengdum greiðslum KA frá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, vegna þátttöku félagsins í Sambandsdeild Evrópu árið 2023, á gengi sem nam 144,90 krónum á hverja evru, 29. september 2023.

mbl.is hefur dóm héraðsdóms undir höndum.

Samningsbundinn þjálfari

Arnar tók við stöðu þjálfara KA um mitt sumar 2020 en framlengdi samning sinn við félagið í september 2021. Á ferli sínum hefur hann meðal annars gegnt stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá stórliðum AEK í Grikklandi og Club Brugge í Belgíu. Ágreiningur Arnars og KA snýr að niðurlagsákvæði samningsins:

„Tryggi KA sér þátttökurétt fær þjálfari sem nemur 10% af allri þeirri fjárhæð sem félag fær greitt frá UEFA vegna þátttöku í Evrópukeppni. Þetta á eingöngu við það fjármagn sem er vegna leikjanna, en nær ekki til ferðagreiðslna eða þeirra greiðslna sem eru óháðar leikjum í Evrópukeppni.“

KA komst áfram í þriðju umferð Sambandsdeildar Evrópu árið 2023 áður en félagið féll úr keppni. Greiðslur til félagsins vegna þátttöku í keppninni námu samtals 850 þúsund evrum, þar sem 100 þúsund evrur fengust greiddar fyrir hverja umferð og 550 þúsund fyrir þann árangur að komast í þriðju umferð.

Rúmir níu mánuðir höfðu liðið frá því að Arnar var skilgreindur aðalþjálfari KA í lok október 2022 þar til liðið tryggði sæti sitt í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar í byrjun ágúst 2023.

Dómurinn telur óumdeilt að Arnar hafi verið samningsbundinn þjálfari KA fram yfir lok leiktímabilsins 2022 enda fengið greidd laun sem slíkur. Arnar komst að munnlegu samkomulagi við Val um að taka við þjálfun og stjórn liðsins í september 2022 en á sama tíma var KA í beinni samkeppni við Val um sæti í Evrópukeppni að ári.

Við þær aðstæður taldi KA ekki samrýmast trúnaðar- og ábyrgðarstörfum Arnars sem þjálfara KA að hann stýrði liðinu áfram. Arnar hélt launagreiðslum samkvæmt samkomulagi út október 2022.

Ferðakostnaðurinn dreginn frá

Dómurinn skýrir niðurlagsákvæði samningsins á þann veg að Arnari beri að fá 10% af allri þeirri fjárhæð sem KA fékk greitt frá UEFA vegna þátttöku í Evrópukeppni. Að mati dómsins er orðalag ákvæðisins skýrt um vilja beggja að 10% hlutur Arnars skuli reiknast af þeirri fjárhæð sem eftir stendur þegar greiðslur vegna ferðakostnaðar hafa verið dregnar frá.

Þær 100 þúsund evrur sem KA fékk greiddar á hvern leik voru ætlaðar til að standa straum af ferðakostnaði. Þannig fellst dómurinn á það með KA að draga beri 300 þúsund evrur frá heildarfjárhæðinni.

Arnari Grétarssyni er þannig dæmd 10% hlutdeild í árangri KA í Evrópukeppni árið 2023, þrátt fyrir að hafa sagt skilið við félagið í september 2022, að eigin frumkvæði, og ekki verið á launum hjá félaginu frá nóvembermánuði sama ár. Þá var Arnar þjálfari Vals sumarið 2023 þegar KA komst í gegnum fyrstu og aðra umferð Sambandsdeildar Evrópu – árangur sem virkjaði greiðslur frá UEFA.

Arnar þjálfar og stýrir liði Vals í dag.
Arnar þjálfar og stýrir liði Vals í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Launagreiðsla sem fylgir orlof

Dómurinn fellst á það með Arnari að bónusgreiðsluna frá KA beri að túlka sem launagreiðslu og beri honum þess vegna að fá greitt 10,17% orlof ofan á hana.

Dómurinn fellst hins vegar ekki á það með Arnari að KA beri að greiða 4% í almennan lífeyrissjóð og önnur 4% í séreignarlífeyrissjóð enda hafi Arnar hvorki tilgreint fjárhæð skuldar KA við lífeyrissjóð í dómkröfum sínum né gert grein fyrir aðild sinni að slíkri kröfu, sem lögum samkvæmt sé lífeyrissjóða að innheimta.

Belgíska stórliðið Club Brugge sló KA út úr Sambandsdeild Evrópu …
Belgíska stórliðið Club Brugge sló KA út úr Sambandsdeild Evrópu í þriðju umferð á síðasta ári. mbl.is/Arnþór

Ekki tímabundið ákvæði

Niðurlagsákvæðið er ekki tímabundið, það kveður á um 10% af allri þeirri fjárhæð sem KA fær greitt frá UEFA vegna þátttöku í Evrópukeppni. KA er ekki í Evrópukeppni í ár. Ef svo væri, hefði Arnar enn átt heimtingu á 10% af hagnaði félagsins af Evrópukeppni? Dómurinn svarar ekki þeirri spurningu.

Samkvæmt heimildum mbl.is er framhaldið til skoðunar hjá KA með tilliti til áfrýjunar málsins til Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert