Nik Chamberlain var að vonum sáttur með sigur sinna kvenna í Breiðabliki gegn Fylki, 2:0, í 5. umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu í Árbænum í kvöld.
Með sigrinum endurheimti Breiðablik toppsæti deildarinnar en liðið er með jafnmörg stig og Íslandsmeistarar Vals en betri markatölu.
„Mér fannst við stjórna leiknum og færðum boltann nokkuð vel á milli í fyrri hálfleik. Hins vegar vorum við nokkuð slakar er kom að ákveðnum atriðum, ég vil að við gerum betur þar.
Á boltanum og fyrir framan markið hefðum við getað gert betur en að vinna leik sem við spilum ekki vel í er gott.
Að koma hingað á Fylkisvöllinn og ná í sigur er mjög mikilvægt. Líkt og að strákarnir gerðu í síðustu viku.
Enn og aftur er ég samt sáttur við varnarleik okkar. Þegar Fylkir keyrði í skyndisóknir voru leikmennirnir mínir komnir til baka á núll einni. Þrátt fyrir að við gerðum ekki vel með boltann í dag var varnarleikurinn í toppstandi.
Aníta [Dögg Guðmundsdóttir] varði vel í skyndisókn Fylkis og Fylkir átti skot í slá en annars vorum við nokkuð sterkar til baka. Það er mjög erfitt að halda liði frá færum í heilar 90 mínútur,“ sagði Nik í samtali við mbl.is.
Markatala Breiðabliks er frábær en liðið hefur skorað 16 mörk og aðeins fengið eitt á sig á tímabilinu. Nik segir aðaláhersluna hafa verið á að breyta leikkerfinu til að bæta varnarleikinn, þar sem að Breiðablik verður ávallt duglegt að skora.
„Það er nefnilega aðalatriðið. Breiðablik hefur alltaf skorað mikið af mörkum en við höfum aðeins breytt leikkerfinu og varnarleiknum.
Leikmenn hafa sýnt mikinn dugnað þegar kemur að varnarleiknum, sem dæmi Agla María [Albertsdóttir]. Hún hefur staðið sig frábærlega í varnarskyldunni.
Ég hef verið mjög sáttur við liðið er það verst sem heild, fram og til baka.“
Bekkur Breiðabliks í kvöld var ekki af verri kantinum en landsliðskonurnar Katrín Ásbjörnsdóttir, Ólöf Sigríður Kristinsdóttir og Áslaug Munda Guðlaugsdóttir komu allar inn á í seinni hálfleik.
„Þetta verður mikill haugsverkur. Mikilvægt er að vera með góða leikmenn til að fá inn á og þær fjórar sem komu inn í seinni hálfleik í kvöld hjálpuðu okkur mikið.
Þannig að hafa alla þessa leikmenn er frábært.“
Breiðablik á Stjörnuna á útivelli í 16-liða úrslitum bikarsins á sunnudaginn kemur en eftir það mætir liðið Val í toppslag 6. umferðarinnar.
„Við tökum þetta einn leik í einu. Fyrst mætum við Stjörnukonum eftir að hafa unnið þær 5:1 um daginn. Þannig mikilvægt er að við höfum gott hugarfar farandi inn í þann leik.
Eftir það skoðum við Valsleikinn en í bili er sunnudagurinn það mikilvægasta þar sem að Breiðablik er með mikla sögu í bikarnum og viljum við halda því áfram,“ bætti Nik við í samtali við mbl.is.