Hver er Emilía Kiær?

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir í keppnistreyju Nordsjælland.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir í keppnistreyju Nordsjælland. Ljósmynd/FCN

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir, 19 ára sóknarmaður Nordsjælland í Danmörku, er í íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu í fyrsta sinn fyrir tvo leiki gegn Austurríki í undankeppni EM 2025 í lok maí og byrjun júní.

Emilía á íslenskan föður og danska móður og hefur á undanförnum árum skorað grimmt fyrir yngri landslið Danmerkur.

Ekki nóg með það þá hefur hún raðað inn mörkum fyrir Nordsjælland á tímabilinu. Emilía er markahæst í dönsku úrvalsdeildinni með tíu mörk í 16 leikjum, tveimur mörkum meira en næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar.

„Hún spilar sem senter í Danmörku og er dæmigerður framherji sem er góður inn í teig.

Hún er líka fín í battaspili þannig að það verður spennandi að sjá hana í hópnum hjá okkur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari um Emilíu á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Svarar sjálf fyrir ákvörðunina

Þar sem hún hefur að stóru leyti alist upp í Danmörku og lék fyrir yngri landslið þjóðarinnar var óttast að Emilía myndi velja að spila fyrir danska A-landsliðið þegar fram liðu stundir.

Þorsteinn kvaðst hins vegar ávallt hafa verið bjartsýnn á að hún myndi velja að leika fyrir íslenska A-landsliðið.

„Ferlið var í sjálfu sér þannig að við erum búin að eiga í samtölum við hana í eitt ár og ég er búinn að fylgjast með henni í töluvert lengri tíma en það. Okkar samtöl hafa verið jákvæð frá upphafi.

Þrátt fyrir sögusagnir um annað hafa bara verið jákvæð samskipti okkar á milli en auðvitað svarar hún fyrir það af hverju hún tekur þessa ákvörðun.

Ég hef alltaf verið mjög bjartsýnn og mín tilfinning hefur alltaf verið sú að hún vilji spila fyrir Ísland,“ sagði hann um hvernig það hafi borið að að Emilía valdi að spila fyrir Ísland.

Emilía Kiær er hún lék með danska U19-ára landsliðinu.
Emilía Kiær er hún lék með danska U19-ára landsliðinu. Ljósmynd/DBU

Einn leikur á Íslandi

Hér á landi lék hún með Val, Stjörnunni og Breiðabliki/Augnabliki í yngri flokkum auk þess sem Emilía á einn meistaraflokksleik að baki á Íslandi.

Hann kom sumarið 2020 með Augnabliki í 1. deild. Þá var Emilía aðeins 15 ára gömul.

Hún hefur aldrei leikið fyrir yngri landslið Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert