Þór/KA sló nágranna sína í Tindastól út í 16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ í dag en leikurinn fór fram á Dalvík vegna vatnsskemmda á heimavelli Stólana. Keflavík gerði góða ferð á Seltjarnarnes og vann Gróttu 3:1.
Bryndís Rut Haraldsdóttir kom Tindastól yfir eftir hálftíma leik en Karen María Sigurgeirsdóttir og Hulda Ósk Jónsdóttir komu Þór/KA yfir áður en flautað var til hálfleiks. Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik og því eru það Akureyringar sem fara í 8 liða úrslitin.
Keflvíkingar voru 2:0 yfir í hálfleik með mörkum Ölmu Rósar Magnúsdóttur og Melanie Rendeiro. Arnfríður Auður Arnarsdóttir minnkaði muninn fyrir Gróttu úr vítaspyrnu en Saorla Miller tryggði Keflavík farseðilinn í 8 liða úrslitin undir lok leiksins.