Telur mál Alberts líklega enda með sakfellingu

Albert var upprunalega kærður fyrir kynferðisbrot í ágúst í fyrra.
Albert var upprunalega kærður fyrir kynferðisbrot í ágúst í fyrra. AFP/Aitta Kisbenedek

Sú staðreynd að ríkissaksóknari feli héraðssaksóknara að höfða sakamál á hendur Alberti Guðmundssyni knattspyrnumanni fyrir kynferðisbrot gefur það til kynna að ríkissaksóknari telji líklegt að hann verði sakfelldur.

Þetta segir Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður konu sem lagði fram kæru á hend­ur Al­berti fyr­ir kyn­ferðis­brot síðasta sum­ar. 

Saksóknarar ósammála

Albert var upprunalega kærður fyrir kynferðisbrot í ágúst í fyrra. Héraðssaksóknari felldi málið svo niður í febrúar í ár. Ástæðan var sú að málið þótti ekki líklegt til sakfellingar.

Ákvörðunin var kærð til ríkissaksóknara sem hefur nú fellt ákvörðun héraðssaksóknara úr gildi.

Ríkissaksóknari er ósammála héraðssaksóknara og telur málið líklegt til sakfellingar og þess vegna er nú lagt fyrir héraðssaksóknara að gefa út ákæru, að sögn Evu.

Niðurfelling felld niður

„[Ríkissaksóknari] fellir niður niðurfellinguna hjá héraðssaksóknara og leggur fyrir héraðssaksóknara að höfða sakamál á hendur Alberti Guðmundssyni fyrir kynferðisbrot. Það er gert með útgáfu ákæru,“ segir Eva.

Albert er ekki í hópi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu fyrir vináttuleiki liðsins gegn Englandi og Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert