Í gær bárust fréttir af því að knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson yrði ákærður fyrir kynferðisbrot.
Ríkissaksóknari felldi ákvörðun héraðssaksóknara í máli Alberts úr gildi og lagði fyrir embættið að höfða sakamál á hendur honum.
Albert var kærður fyrir kynferðisbrot í ágúst á síðasta ári en meint atvik átti sér stað í júní sama ár.
Héraðssaksóknari felldi málið niður í febrúar og var sú ákvörðun kærð til ríkissaksóknara en meint fórnarlamb Alberts sakar hann um nauðgun.
„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum,“ segir meðal annars í 194. grein almennra hegningarlaga er varða kynferðisbrot.
Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður konunnar sem kærði Albert, greindi frá því í samtali við mbl.is í gær að hún teldi málið líklegt til sakfellingar og Albert gæti því þurft að sitja inni, verði hann fundinn sekur.