Þetta gefur okkur gríðarlega orku

Vestramenn börðust af miklum krafti í leiknum í dag.
Vestramenn börðust af miklum krafti í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, segir að stigið sem Vestri náði í dag gegn KR á Meistaravöllum geri mikið fyrir lið sitt, en lið hans náði að vinna sig aftur inn í leikinn í seinni hálfleik, eftir að hafa lent tveimur mörkum undir í fyrri hálfleik.

„Það gefur fátt okkur meira en þetta, að koma til baka hafandi lent undir á móti KR á heimavelli þeirra. Það gefur okkur gríðarlega orku og gott fyrir framhaldið að vita að við getum þetta,“ segir Davíð Smári.

Hann segir að sér hafi fundist liðin vera áþekk í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að tvö mörk hafi skilið á milli eftir hálfleikinn. „Mér fannst hálfleikurinn jafnari en mörkin segja til um, þetta var 50-50 leikur, en við lekum inn klaufamörkum og tökum slæmar ákvarðanir á síðasta vallarþriðjungnum, og löguðum það í seinni hálfleik.“

Vestramenn töpuðu í síðustu umferð fyrir Víkingum í leik þar sem Vestri þótti sýna góða baráttu, þó að meistararnir hefðu reynst ofjarlar þeirra. Davíð Smári segir það klárlega hafa verið markmiðið að byggja ofan á þann leik í dag. „Við vildum taka það með okkur úr Víkingsleiknum að við þorðum þar að spila boltanum,“ segir Davíð Smári.

Hann bætir við að það hafi verið erfitt að spila á KR-vellinum, sem sé þungur og erfiður, en að heilt yfir hafi hann verið ánægður með liðið sitt. „En ég er sömuleiðis svekktur með að ná ekki að klára þetta, því að við fengum alveg færi til þess,“ segir Davíð Smári.

-En hvernig var hálfleiksræðan, þegar þið voruð tveimur mörkum undir?

„Þegar við lekum inn auðveldum mörkum þá þora menn ekki að stíga upp með bakverðina. Við fórum yfir það í hálfleiknum, við vildum stíga upp með þá og spyrja KR-vörnina ákveðinna spurninga, sem mér fannst við gera ágætlega, við settum KR-liðið í ákveðin vandræði.“

Vestri spilar næst við Stjörnuna, og þá aftur á útivelli. Davíð Smári segir að Vestri fari í þann leik með bjartsýni eftir leikinn í dag. „En ég vil þá líka taka fram að Vestraliðið er búið að ferðast 30.000 kílómetra frá áramótum og ekki spilað einn heimaleik á þessu ári. Auðvitað er það lýjandi, þannig að það að við gátum komið aftur í seinni hálfleik gegn einu af þeim liðum sem eiga að vera með best þjálfuðu liðum deildarinnar hvað formið snertir, að þá er það mikill kraftur og meðbyr sem við tökum með okkur.“

-En hvernig líst Davíð á framhaldið?

„Við sækjum hér stig, sem veitir á gott, það er stutt í heimavöllinn og við eigum mjög marga menn inni sem eru meiddir. Þannig að ég held að stuðningsmenn liðsins og við sem komum að því, við getum ekki verið annað en bjartsýnir,“ segir Davíð Smári að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert