Alexander Máni Guðjónsson lék með Stjörnunni gegn KA í Bestu deild karla í fótbolta í dag, aðeins 14 ára gamall.
Alexander kom inn á sem varamaður á 86. mínútu og lék sinn fyrsta leik í efstu deild en þrettán mínútum áður kom Daníel Laxdal, leikjahæsti maður Stjörnunnar, sem er 23 árum eldri en Alexander, einnig inn á sem varamaður.
Alexander er sonur Guðjóns Baldvinssonar sem er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu Stjörnunnar í efstu deild.
Hann er þriðji yngsti leikmaðurinn sem spilar í efstu deild karla en Alexander verður 15 ára á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, og er því 14 ára og 343 daga gamall í dag.
Gils Gíslason úr FH á metið en hann lék 14 ára og 318 daga gamall árið 2022 og Eyþór Örn Ómarsson úr ÍBV er næstur en hann lék 14 ára og 330 daga gamall árið 2018.