Njarðvíkingar eru á toppi 1. deildar karla í knattspyrnu á nýjan leik eftir markalaust jafntefli við ÍBV, 0:0, á grasvellinum í Njarðvík í dag.
Þetta var lokaleikur fjórðu umferðar og að henni lokinni eru Njarðvík og Fjölnir með 10 stig hvort. Njarðvíkingar, undir stjórn Eyjamannsins Gunnars Heiðars Þorvaldssonar, eru með betri markatölu og Aron Snær Friðriksson markvörður, sem lék mjög vel í dag, hefur aðeins fengið á sig eitt mark til þessa.
Eyjamenn hafa hins vegar aðeins unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum en eru þó í fimmta sæti eftir þennan leik með fimm stig.