Fram tók á móti Breiðablik í Úlfarsárdal í áttundu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag. Breiðablik sigraði að lokum 4:1 eftir stórskemmtilegan leik.
Fyrri hálfleikurinn var hin mesta skemmtun en Patrik Johannesen fór hræðilega að ráði sínu á sjöttu mínútu þegar hann lét Ólaf Íshólm Ólafsson, markvörð Fram, verja frá sér í tvígang. Höskuldur Gunnlaugsson átti þá góða fyrirgjöf og Patrik, einn og óvaldaður í teignum, átti skalla að marki. Ólafur varði en boltinn barst aftur til Færeyingsins sem skaut af stuttu færi en skotið var slakt og Ólafur varði aftur.
Guðmundur Magnússon kom heimamönnum 1:0 yfir á fimmtándu mínútu eftir hornspyrnu Fred Saraiva með föstum skalla af nærsvæðinu og Anton Ari Einarsson kom engum vörnum við, þetta var fjórði leikurinn í röð sem Guðmundur skorar.
Blikar létu þó aldeilis ekki deigan síga og Viktor Karl Einarsson jafnaði metin fimm mínútum síðar með stórkostlegu einstaklingsframlagi. Viktor fékk boltann á lofti frá Kristni Jónssyni og lyfti boltanum skemmtilega yfir Kyle McLagan áður en hann skaut föstu skoti meðfram jörðinni sem Ólafur Íshólm átti ekki möguleika á að verja. 1:1 og tuttugu mínútur liðnar. Már Ægisson fékk dauðafæri til að koma heimamönnum aftur yfir skömmu síðar eftir góðan undirbúning Magnúsar Þórðarsonar en skaut yfir af vítapunktinum.
Liðin skiptust á að sækja í fjörugum fyrri hálfleik en staðan þegar Elías Ingi flautaði til hálfleiks var 1:1.
Síðari hálfleikur var aðeins rólegri en sá fyrri en engu að síður galopinn og skemmtilegur. Breiðablik gerði tilkall til vítaspyrnu eftir 52 mínútur þegar Kristinn Jónsson féll til jarðar í teignum en Elías Ingi var vel staðsettur og sá ekki ástæðu til að dæma víti.
Liðin skiptust á að sækja án þess að skapa sér nein opin færi en á 73. mínútu skoraði Aron Bjarnason annað mark Blika eftir góðan undirbúning Jasons Daða og Viktors Karls. Viktor lagði boltann til hliðar á Aron sem afgreiddi boltann snyrtilega í netið og staðan orðin 2:1.
Blikar tóku öll völd á vellinum í kjölfarið á markinu og fengu urmul af hornspyrnum án þess að gera sér mat úr þeim. Viktor Karl Einarsson skoraði síðan þriðja mark Breiðabliks á 83. mínútu eftir góðan sprett en laflaust skot hans fór klaufalega á milli fóta Ólafs í markinu sem átti að gera miklu betur.
Tveimur mínútum síðar skoraði varamaðurinn Ísak Snær Þorvaldsson eftir sending annars varamanns, Kristins Steindórssonar, og Blikar sigldu öruggum sigri í höfn.
Breiðablik mætir Víking á Kópavogsvelli á fimmtudagskvöld en næsti leikur Fram er gegn FH á Kaplakrikavelli.