Dóms að vænta í máli Kolbeins

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóms er að vænta í kynferðisbrotamáli knattspyrnumannsins fyrrverandi Kolbeins Sigþórssonar. 

Dómurinn verður kveðinn upp á mánudag. Samkvæmt RÚV kom Kolbeinn ekki fyrir dóminn heldur gaf skýrslu í gegnum fjarfundabúnað. 

Kolbeinn er ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barnungri stúlku. Málið gegn honum var þingfest í janúar og aðalmeðferð tók einn dag. 

Líkt og fram kemur á RÚV er Kolbeini gefið að sök að hafa brotið gegn stúlkunni í júní fyrir tveimur árum og sagði saksóknari í ákærunni hann hafa nýtt yfirburði sína yfir henni. Verði hann fundinn sekur er lágmarksrefsing eins árs fangelsi.

Móðir stúlkunnar krefst þess fyrir hönd dóttur sinnar að Kolbeini verði gert að greiða henni þrjár milljónir króna í miskabætur.

Kolbeinn neitar sök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert