17 ára með aðra þrennu

Jakob Gunnar
Jakob Gunnar Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Jakob Gunnar Sigurðarson, leikmaður Völsungs, skoraði sína aðra þrennu á tímabilinu í 2. deild karla þegar Húsvíkingar sóttu Hauka heim í Hafnarfjörðinn í dag og sigruðu 3:1.

Jakob er einungis 17 ára gamall en er þegar búinn að skora átta mörk í deildinni.

Framherjinn ungi skoraði þrennu gegn Reyni í þriðju umferð og endurtók leikinn í dag en Jakob á að baki sex leiki fyrir yngri landslið Íslands. 

Völsungur er í þriðja sæti deildarinnar með níu stig en Selfoss eru efstir með þrettán stig og Ægir í öðru sæti með ellefu. Víkingur Ó. með 9 stig og Haukar með 8 eru í fjórða og fimmta sæti.

Höttur/Huginn vann Kormák/Hvöt, 3:1, í hinum leik dagsins í Fellabæ. Martim Cardoso og Heiðar Logi Jónsson skoruðu fyrir Hött/Hugin auk sjálfsmarks en Papa Diounkou skoraði fyrir Húnvetninga. Höttur/Huginn er með 8 stig í sjötta sæti og Kormákur/Hvöt er með 4 stig í áttunda sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert