Blikar unnu baráttuna um Kópavog

HK-ingurinn Atli Hrafn Andrason og Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni.
HK-ingurinn Atli Hrafn Andrason og Höskuldur Gunnlaugsson í baráttunni. mbl.is/Óttar Geirsson

Breiðablik lagði HK, 2:0, í Kópavogsslag í Kórnum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var afar bragðdaufur og bauð upp á litla skemmtun. Mögulega hafði það áhrif að Eiður Gauti Sæbjörnsson, leikmaður HK, fékk þungt höfuðhögg eftir einungis 15 sekúndna leik og lá eftir í nokkrar mínútur. Hann varð að fara af velli í kjölfarið en á tímabili leit þetta alls ekki vel út.

Hákon Ingi Jónsson átti líklega bestu tilraun heimamanna í leiknum en Anton Ari Einarsson varði skot hans rétt utan teigs nokkuð þægilega. HK-ingar ógnuðu fyrir utan það ekki mikið en voru þó nokkuð þéttir varnarlega.

Ísak Snær Þorvaldsson átti hörku skalla eftir hornspyrnu á annarri mínútu uppbótartímans en Arnar Freyr Ólafsson, markvörður HK, sá við honum með frábærri markvörslu. 

Arnar kom þó engum vörnum við á fimmtu mínútu uppbótartímans en þá kom Jason Daði Svanþórsson Breiðabliki yfir. Höskuldur Gunnlaugsson átti þá aukaspyrnu langt fram völlinn í átt að Ísaki Snæ sem vann skallaeinvígi gegn Birki Val Jónssyni. Boltinn barst til Jasons sem kláraði færið af mikilli yfirvegun úr teignum. Við endursýningu kom þó í ljós að boltinn var klárlega á ferð þegar Höskuldur tók aukaspyrnuna við miðlínu svo líklega átti markið aldrei að standa.

Seinni hálfleikur var einungis sex mínútna gamall þegar Blikar tvöfölduðu forystuna. Oliver Sigurjónsson átti þá langa sendingu fram sem Þorsteinn Aron Antonsson náði ekki að skalla frá. Í kjölfarið barst boltinn á Aron Bjarnason sem ýtti honum skemmtilega í hlaupið hjá Ísaki Snæ sem kláraði virkilega vel með vinstri fæti utarlega úr teignum.

Aron Bjarnason fékk sannkallað dauðafæri til að skora þriðja mark Breiðabliks á 74. mínútu. Hann slapp þá aleinn í gegn eftir hornspyrnu HK-inga en setti boltann framhjá markunu úr teignum.

Síðustu mínútur leiksins voru frekar rólegar fyrir utan stangarskot varamannsins Dags Fjeldsteds. Hann fékk boltann þá í miðjum teignum og ætlaði að stýra honum í hornið með fyrstu snertingu en setti hann í stöngina.

Lokatölur í Kópavogsslagnum í Kórnum því 2:0, Breiðabliki í vil. Liðið er í öðru sæti Bestu deildarinnar með 22 stig, þremur stigum minna en topplið Víkings. HK er áfram í 10. sæti með sjö stig.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

HK 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert