Gefur oft auka drifkraft að elta eitthvað

Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Breiðabliks, í leiknum í kvöld.
Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Breiðabliks, í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var sáttur með sigur á grönnum sínum í HK í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Mjög ánægður með þétta frammistöðu. Við fáum fá færi á okkur, vorum mjög sterkir varnarlega og á pari sóknarlega. Ég vil meina að við hefðum getað skorað aðeins fleiri mörk og gert út um leikinn fyrr en heilt yfir var þetta mjög gott. Það er aldrei auðvelt að koma hingað, lið hafa verið að lenda í vandræðum hérna og þar á meðal við sjálfir undanfarin ár.“

Það tók tíma fyrir Blika að koma inn fyrsta markinu en HK-ingar voru þéttir fyrir.

„Við vorum bæði búnir að undirbúa það að þurfa að vera þolinmóðir og líka að svara því þegar þeir koma í pressuna og eru með læti. Við höfum lent illa í því í gegnum árin og í dag vorum við meira að leita langt þannig að þegar þeir ætluðu að pressa okkur höfðu þeir lítið til að grípa í. 

Mér fannst við svo hægt og rólega taka yfir þennan leik og gerðum vel að komast yfir fyrir hálfleik. Svo spiluðum við mjög góðan seinni hálfleik.“

Eiður Gauti Sæbjörnsson, leikmaður HK, fékk þungt höfuðhögg eftir einungis 15 sekúndna leik. Leikurinn var stopp í 3-4 mínútur á meðan verið var að hlúa að honum.

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að þetta hafi frekar haft áhrif á mig en liðið. Við erum náskyldir ég og Eiður Gauti og ég þurfti sjálfur bara smá stund til að jafna mig. Ég sendi bara bestu kveðjur á hann og þetta var bara mjög leiðinlegt að sjá. Ég óska honum góðs bata og vonandi sjáum við hann aftur á vellinum sem fyrst.“

Breiðablik tapaði báðum leikjum sínum gegn HK á síðasta tímabili en liðið var töluvert betri aðilinn í leiknum í kvöld.

„Ég held að þetta hafi að stóru leyti snúist um að taka á móti þeim. Við vitum að þeir eru mjög góðir í að gíra sig upp í þessa leiki og við lögðum mikla áherslu að vera klárir í að mæta því. Menn gerðu það mjög vel og voru yfir í baráttunni. Ég held að það hafi verið lykillinn að þessu.

Blikar eru í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Víkings.

„Maður er náttúrlega aldrei sáttur við að tapa stigum og í fullkomnum heimi vinnur maður alla leiki. Þetta er samt sem áður bara svo langt mót og það er svo mikið eftir að ég held að við séum heilt yfir ágætlega sáttir með stigasöfnunina. Mér finnst að við hefðum getað fengið meira út úr þessum leikjum þar sem við höfum tapað stigum en við erum bara sáttir. Það gefur oft auka driftkraft að vera að elta eitthvað í stað þess að verja það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert