Vestri með heimasigur í Laugardalnum

Silas Songani í baráttu við Jóhann Árna Gunnarsson og Jökull …
Silas Songani í baráttu við Jóhann Árna Gunnarsson og Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar fylgist með. Songani kom Vestra í 3:1 undir lok fyrri hálfleiks. mbl.is/Óttar

Vestri hafði betur gegn Stjörnunni, 4:2, í 9. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á heimavelli Þróttar í Laugardalnum þar sem enn er verið að leggja nýtt gervigras á Ísafirði. 

Úrslit dagsins þýða að Vestri er níunda sæti með 10 stig en Stjarnan situr í sjöunda sæti með 13 stig. 

Vestri komst yfir eftir aðeins 4. mínútna leik. Hornspyrna Toby King fann Pétur Bjarnason á fjærstönginni. Hann kom boltanum aftur fyrir markið og var það Daninn, Jeppe Gertsen sem stangaði boltann í netið.  

Aðeins fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Vestri forystu sína í gegnum Johannes Selvén sem skoraði af miklu öryggi framhjá Árna Snæ Ólafssyni í marki Stjörnunnar eftir frábæra sendingu frá Tarik Ibrahimamagic. Mjög einfalt fyrir Vestra og virtust Stjörnumenn vera hálfsofandi á þessum upphafs mínútum.  

Stjarnan sótti aðeins í sig veðrið í kjölfarið og minnkaði muninn á 18. mínútu. Boltinn datt fyrir Hauk Örn Brink, rétt fyrir utan teiginn, og hann smurði boltanum í fyrsta í fjærhornið.

Á 40. mínútu leiksins komst Vestri í 3:1. Elvar Baldvinsson kom með frábæra fyrirgjöf á fjærstöngina sem fann Silas Songani. Hann tók boltann niður, leitaði inn á vinstri fót sinn og skoraði. 

Aðeins mínútu síðar var Haukur Örn Brink aftur á ferðinni. Róbert Frosti Þorkelsson þræddi boltann í gegn á Hauk sem skoraði yfirvegaður framhjá William Eskelinen í marki Vestra. Staðan 3:2 í hálfleik fyrir Vestra. 

Ólíkt fyrri hálfleik, byrjaði síðari hálfleikurinn afar rólega. Stjarnan var meira með boltann en vörn Vestra var þétt tilbaka. Haukur Örn Brink fékk fínasta færi til að skora sitt þriðja mark eftir sendingu frá Örvari Eggertssyni en skot hans fór í varnarmann. 

Toby King skoraði fjórða mark Vestra á 70. mínútu. Toby fékk boltann á vinstri kantinum, keyrði inn á völlinn og hamraði boltanum í vinkilinn. 

Stjarnan pressaði Vestra stíft á lokamínútunum en náðu ekki að minnka muninn. Lokaniðurstöður í dag, 4:2 fyrir Vestra.

Vestri 4:2 Stjarnan opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert