Sveindís Jane Jónsdóttir átti góðan leik þrátt fyrir erfiðar aðstæður í sigri Íslands á Austurríki á Laugardalsvelli í kvöld. Löng innköst hennar, hraði og vinnusemi sköpuðu mikinn usla í vörn gestanna.
„Þetta var nokkuð gott miðað við aðstæður, það var mjög erfitt að spila þennan leik og sérstaklega fyrri hálfleikinn á móti vindi. Ég var kannski ekki mikið í boltanum sjálf og þetta var mikil barátta allan leikinn þannig að þetta var erfitt en mjög sætt í lokin“. Sagði Sveindís í samtali við mbl.is í leikslok.
Þrátt fyrir að vera með yfirhöndina í leiknum hafði veðrið mikil áhrif. Hvernig leið ykkur inni á vellinum?
„Mér leið vel allan leikinn, þannig séð, það var erfitt að vera ekki mikið í boltanum í fyrri hálfleik en ég vissi að við myndum vinna. Það skipti þannig séð engu máli hvernig leikurinn spilaðist heldur bara að vinna og ég var mjög ánægð þegar dómarinn flautaði loksins af“.
Hlín Eiríksdóttir og Sandra María Jessen áttu afbragðsdag á köntunum hjá landsliðinu og sóknarlínan lagði mikla vinnu á sig. Sveindís var ánægð með frammistöðu fremstu leikmanna liðsins.
„Mér fannst mjög gaman að spila með Hlín og Söndru, þær hlupu endalaust og Hlín auðvitað skoraði í fyrri hálfleiknum. Hlín er búin að spila mjög vel í Svíþjóð og Sandra í deildinni hérna heima og er í mjög góðu standi. Það er frábært fyrir landsliðið að þær séu að spila svona vel“.
Ísland er nú með þriggja stiga forskot á Austurríki þegar tveir leikir eru eftir í riðlinum en Ísland mætir Póllandi og Þýskalandi um miðjan júlí. Sveindís segir þennan sigur vera gott veganesti inn í næsta landsleikjahlé.
„Það er frábært fyrir okkur, við þurfum auðvitað að klára næstu leiki og gera vel til að komast á EM. Ég hlakka bara til að fagna EM sæti í lok næsta glugga, við ætlum allar að komast beint á EM“.
Eins og áður segir fara síðustu leikirnir fram um miðjan júlí þegar flest lið á meginlandi Evrópu eru á undirbúningstímabili. Hvernig verður undirbúningi þínum háttað fyrir næsta glugga?
„Ég ætla að taka mér smá frí en svo tekur við æfingaprógram hjá liðinu (Wolfsburg innsk.) og æfi í viku með liðinu áður en landsliðið kemur aftur saman“. Sagði kampakát Sveindís að leik loknum.