Ísland skrefi nær EM eftir sigur

Ísland hafði betur gegn Austurríki, 2:1, í undankeppni EM kvenna í fótbolta á Laugardalsvellinum í kvöld. 

Ísland er þar með komið í annað sæti riðilsins með sjö stig en Austurríki er í því þriðja með fjögur. 

Lokaleikir riðilsins fara fram í næsta mánuði. Fyrst mætir Ísland Þýskalandi hér heima 12. júlí og síðan Póllandi ytra 16. júní. 

Hlín kom Íslandi á bragðið 

Austurríki fór betur af stað og komst í nokkrar góðar stöður en án árangurs. 

Hlín Eiríksdóttir kom íslenska liðinu yfir á 17. mínútu leiksins. Þá keyrði Guðrún Arnardóttir listilega upp völlinn, kom boltanum á Karolínu Leu Vilhjálmsdóttur sem áframsendi hann á Hlín sem skoraði örugglega undir Jasmin Pal markvörð Austurríkis, 1:0. 

Elleen Campbell reyndi skot fyrir aftan miðju úr miðjunni sem fór rétt yfir markið, fínasta tilraun en heppnin með Íslandi. 

Austurríki jafnaði á 44. mínútu leiksins en þar var Campbell á ferðinni. Marie-Therese Höbinger átti þá fasta fyrirgjöf á miðjan teiginn. Þar læddi Campbell sér á nærstöngina, framhjá Guðnýju Árnadóttur og stangaði boltann í netið, 1:1. 

Ísland miklu betra í seinni

Ísland var næstum því komið yfir er hornspyrna Karólínu Leu í upphafi seinni hálfleiksins hafnaði í innanverðri fjærstönginni. 

Sveindís Jane Jónsdóttir komst þá í gott skotfæri á 53. mínútu en setti boltann rétt framhjá markinu. 

Karólína átti aðra hornspyrnu í fjærstöngina á 56. mínútu. Guðrún var síðan í baráttunni en náði ekki að skalla boltann að markinu. 

Hlín komst í gott skotfæri eftir góðan undirbúning Sveindísar á 62. mínútu en Pal sá við henni. 

Íslenska liðið vildi vítaspyrnu stuttu seinna þegar að Hildur Antonsdóttir datt niður í teignum en ekkert dæmt. 

Hildur Antonsdóttir kom Íslandi yfir á nýjan leik, 2:1, á 70. mínútu. Þá stangaði hún hornspyrnu Karólínu Leu í netið. 

Austurríki ógnaði nánast ekkert það sem eftir lifði leiks og Ísland hélt út. 

Ísland 2:1 Austurríki opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert