Åge: Hefðum getað unnið 2:0

Åge Hareide fyrir leikinn í kvöld.
Åge Hareide fyrir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var að vonum ánægður með frækinn 1:0-sigur á Englandi í vináttulandsleik á Wembley í London í kvöld.

„Þetta er gott. Þetta var gott fyrir strákana því okkur fannst eftir leikinn gegn Úkraínu að við hefðum átt að fá meira út úr honum.

Við vinnum 1:0, vörðumst vel og strákarnir sýndu karakter. Við erum stöðugt að bæta okkur og hefðum getað unnið 2:0 í dag.

Ég er svo ánægður fyrir hönd strákanna. Þeir lögðu svo hart að sér á æfingum, þeir stóðu saman og leikmenn sem komu inn gerðu vel. Því er ég hæstánægður,“ sagði Hareide í samtali við Stöð 2 Sport eftir leik.

Liðsandinn skilaði sigrinum

Spurður hvernig íslenska liðið hefði farið að því að vinna þetta sterkt lið sagði Norðmaðurinn:

„Ég tel það vera liðsanda Íslands. Við erum að leita aftur til þess þegar við stóðum saman og gátum varist vel. Sömuleiðis að beita skyndisóknum og búa til færi til þess að skora mörk.

Við getum verið aftarlega á vellinum svo lengi sem við trúum á það og hvern annan. Núna gerðum við það. Við höfum æft þetta mikið. Strákarnir hafa staðið sig vel á æfingum og það er indælt að þeir hafi náð í þennan sigur.“

Reynum þetta aftur á mánudag

Hversu mikið afrek er þessi sigur?

„Wembley er alltaf erfiður heim að sækja og þeir tapa mjög sjaldan hér. Það er góðs viti. Við erum mjög ánægðir með okkur sjálfa en við verðu, að byggja ofan á þetta.

Við eigum annan erfiðan leik á mánudag þannig að við verðum að reyna þetta aftur,“ sagði Hareide að lokum og átti þar við vináttulandsleik gegn Hollandi í Rotterdam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert