Náum betur og betur saman

Daníel Leó Grétarsson, fyrir miðju, átti stórleik í íslensku vörninni …
Daníel Leó Grétarsson, fyrir miðju, átti stórleik í íslensku vörninni í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Daníel Leó Grétarsson átti mjög góðan leik í vörn íslenska landsliðsins í knattspyrnu þegar að vann óvæntan sigur á Englendingum, 1:0, á Wembley í London í kvöld.

„Við unnum heimavinnuna okkar vel, vorum allir á sömu blaðsíðu. Ekki bara vörnin, heldur var það liðið allt sem varðist rosalega vel og gerði það í 90 mínútur," sagði Grindvíkingurinn við mbl.is eftir leikinn.

Daníel og Sverrir Ingi Ingason hafa spilað saman sem miðverðir að undanförnu og þeir stigu vart feilspor allan tímann.

„Miðvarðapar þarf að fá margar mínútur saman og við Sverrir náum alltaf betur saman. Þetta verður betra og betra með hverjum leik hjá okkur," sagði Daníel.

Englendingar sóttu mjög stíft framan af leiknum en Daníel sagði að það hefði ekki komið íslenska liðinu úr jafnvægi.

„Nei, mér fannst það ekki. Mér fannst við spila ágætlega frá byrjun. Fyrstu tíu mínúturnar í leik eru alltaf eins og þær eru. Maður spilar einfalt til að byrja með en svo fórum við að spila þokkalega vel út úr pressu Englendinganna. Auðvitað er ekki hægt að spila alltaf út úr pressunni hjá þeim en þegar við gerðum það, þá gerðum við það vel, fannst mér.“

Reyndi að gera mig eins stóran og ég gat

Daníel bjargaði íslenska liðinu í hættulegasta færi Englendinga á 17. mínútu þegar Cole Palmer fékk boltann í upplögðu skotfæri eftir að Hákoni markverði mistókst að senda út úr vítateignum.

„Ég reyndi bara að gera mig eins stóran og ég gat. Þegar svona staða kemur upp reynir maður að hjálpa markmanninum eins mikið og maður getur og mér tókst það. Sem betur fer fór boltinn í mig."

Daníel sagði að frammistaðan gæfi liðinu gríðarlegt sjálfstraust. „Já, algjörlega. Sjálfstraustið eykst og við þurfum að halda áfram á sömu braut og gera sömu hlutina gegn Hollandi á mánudagskvöldið," sagði Daníel Leó Grétarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert