Sem betur fer bjargaði Daníel málunum

Hákon Rafn Valdimarsson slær boltann frá marki Íslands á Wembley …
Hákon Rafn Valdimarsson slær boltann frá marki Íslands á Wembley í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hákon Rafn Valdimarsson markvörður hélt marki sínu hreinu á Wembley í London í kvöld þegar Ísland vann óvæntan sigur á Englandi, 1:0, í vináttulandsleik í fótbolta.

„Þetta var geggjaður leikur og nánast fullkomlega spilað hjá okkur. Við vorum með okkar leikplan og ætluðum okkur að reyna að vinna. Það gekk bara frábærlega," sagði Hákon við mbl.is.

Ég er í heildina mjög ánægður með minn leik. Það var ekki mikið af skotum á markið en mikið af fyrirgjöfum sem mér gekk vel að eiga við. Varnarleikurinn var mjög góður hjá liðinu og við þurfum að byggja ofan á þetta í leiknum í Hollandi," sagði markvörðurinn sem er á mála hjá enska félaginu Brentford en það keypti hann af Elfsborg í Svíþjóð í vetur og Hákon var varamarkvörður liðsins á lokaspretti úrvalsdeildarinnar í vor.

Hákon steig eitt feilspor í kvöld þegar hann átti slæma sendingu frá markinu. Cole Palmer fékk boltann og var í dauðafæri en Daníel Leó Grétarsson kastaði sér fyrir hann og blokkaði skotið í horn.

„Já, þetta var ferlega léleg sending hjá mér, svona má ekki gerast. En sem betur fer var Daníel á réttum stað og bjargaði málunum. Þarna hafði ég heppnina með mér," sagði Hákon Rafn Valdimarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert