Skemmtilegasta vika á ferlinum

Bjarki Steinn Bjarkason, til vinstri, ánægður í leikslok í kvöld.
Bjarki Steinn Bjarkason, til vinstri, ánægður í leikslok í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Bjarki Steinn Bjarkason, leikmaður Venezia á Ítalíu, spilaði sinn þriðja landsleik í kvöld þegar Ísland vann England á Wembley, 1:0, og var nokkuð óvænt í byrjunarliðinu.

Bjarki kom inn í stöðu hægri bakvarðar en hann hafði áður spilað tvo vináttuleiki gegn Suður-Kóreu og Sádi-Arabíu árið 2022.

Spurður hvenær hann hefði fengið að vita að hann yrði í byrjunarliðinu sagði Bjarki: „Við vorum búnir að æfa þetta í vikunni þannig að ég hafði hugmyndir um að þetta gæti gerst. Svo var það gefið upp á fundinum fyrir leik þannig að ég hafði tíma til að átta mig."

Það gerist ekki betra en að fá svona tækifæri á Wembley, þetta er það sem alla dreymir um. Strax þegar ég kom hingað frá Feneyjum í vikunni var ég klár í að gefa allt í þetta. Núna var ég hægri bakvörður, ég get spilað margar stöður á vellinum og ég er klár í að gera allt sem ég get fyrir landsliðið," sagði Bjarki við mbl.is.

Bjarki hefur annars ekki gert mikið af því að spila sem bakvörður með Venezia.

„Nei, ég hef spilað sem vængbakvörður eða á miðjunni. Sem vængbakvörður hef ég varist mikið og kann þær færslur alveg. Þetta var aðeins öðruvísi í dag en ég reyndi að gera það eins vel og ég gat," sagði Bjarki.

Rosalega erfiður fyrstu fimmtán

Hann þurfti að glíma við kantmanninn Anthony Gordon sem lét mikið að sér kveða framan af leiknum.

„Já, hann var rosalega erfiður fyrstu 15 mínúturnar. En ég vann mig betur inn í leikinn eftir það og held að ég hafi náð að gera þetta vel eftir það," sagði Bjarki um baráttuna við Newcastle-manninn.

Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá Bjarka því hann er nýkominn úr umspili með Venezia þar sem liðið tryggði sér sæti í ítölsku A-deildinni.

„Það var það skemmtilegasta sem ég hafði gert á ferlinum, og svo kem ég hingað á Wembley og við vinnum England. Það gerist bara ekki betra en þessi vika hjá mér," sagði Bjarki Steinn sem er samningsbundinn Venezia til ársins 2027 og á von á því að spila með félaginu í A-deildinni, einni af sterkustu deildum Evrópu, á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert