7. umferð: Skoraði þrennu eins og foreldrarnir - Anna í 200

Ísabella Sara Tryggvadóttir og Anna María Baldursdóttir eigast við á …
Ísabella Sara Tryggvadóttir og Anna María Baldursdóttir eigast við á Hlíðarenda en Ísabella skoraði þrennu og Anna spilaði sinn 200. leik í deildinni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fyrirliði Stjörnunnar náði stórum áfanga í sjöundu umferð Bestu deildar kvenna og tveir leikmenn skoruðu sína fyrstu þrennu í deildinni.

Anna María Baldursdóttir lék sinn 200. leik í deildinni þegar Stjarnan tapaði fyrir Val á Hlíðarenda, 4:0. Allir leikir hennar eru fyrir Garðabæjarliðið en Anna hefur leikið með meistaraflokki Stjörnunnar frá árinu 2010 þegar hún kom 15 ára gömul inn í liðið.

Anna er aðeins 20. leikmaðurinn í sögu efstu deildar kvenna sem nær að spila 200 leiki. Hún er sú fjórða sem nær því fyrir Stjörnuna, en ekkert annað félag á fjóra leikmenn með 200 leiki. Ásgerður S. Baldursdóttir lék 218 leiki fyrir Stjörnuna, Auður Skúladóttir 211 og Harpa Þorsteinsdóttir 205.

Kristrún Rut Antonsdóttir skoraði sína fyrstu þrennu í deildinni þegar Þróttur vann Tindastól, 4:2, í Laugardalnum. Kristrún hefur þar með skorað fjögur af sjö mörkum Þróttar í deildinni en fyrir tímabilið hafði hún aðeins skorað fimm mörk í 89 leikjum í deildinni, öll fyrir Selfoss.

Kristrún er þriðji Þróttarinn sem skorar þrennu í efstu deild kvenna en Ólöf Sigríður Kristinsdóttir var með þá fyrstu árið 2020 og Katla Tryggvadóttir þá næstu árið 2022.

Kristrún Rut Antonsdóttir í leiknum gegn Tindastóli þar sem hún …
Kristrún Rut Antonsdóttir í leiknum gegn Tindastóli þar sem hún skoraði þrennu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ísabella Sara Tryggvadóttir, sem er aðeins 17 ára gömul, skoraði líka sína fyrstu þrennu í deildinni þegar Valur vann Stjörnuna 4:0. Þess má geta að faðir hennar, Tryggvi Guðmundsson, skoraði sjö þrennur í efstu deild karla og móðir hennar, Hrafnhildur Gunnlaugsdóttir, skoraði eina þrennu fyrir KR í efstu deild kvenna árið 1993.

Sigurbjörg Diljá Gunnarsdóttir, sem er 16 ára, skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar hún tryggði Keflavík sigur á Víkingi, 1:0. Hún skaut þar með Keflvíkingum upp fyrir lið föður síns á stigatöflunni en Gunnar Magnús Jónsson, faðir Sigurbjargar, þjálfar Fylki.

Úrslit­in í 7. um­ferð:
Val­ur - Stjarn­an 4:0
Fylk­ir - FH 0:3 
Vík­ing­ur R. - Kefla­vík 0:1 
Þrótt­ur R. - Tinda­stóll 4:2
Þór/​KA - Breiðablik 0:3

Marka­hæst­ar:
10 Sandra María Jessen, Þór/​​​​​KA
7 Vig­dís Lilja Kristjáns­dótt­ir, Breiðabliki
6 Agla María Al­berts­dótt­ir, Breiðabliki
4 Am­anda Andra­dótt­ir, Val
4 Andrea Rut Bjarna­dótt­ir, Breiðabliki
4 Eva Rut Ásþórs­dótt­ir, Fylki
4 Ísabella Sara Tryggvadóttir, Val
4 Kristrún Rut Antonsdóttir, Þrótti
4 Snædís María Jörundsdóttir, FH
3 Birta Georgs­dótt­ir, Breiðabliki
3 Fann­dís Friðriks­dótt­ir, Val
3 Guðrún Elísa­bet Björg­vins­dótt­ir, Val
3 Haf­dís Bára Hösk­ulds­dótt­ir, Vík­ingi
3 Hannah Sharts, Stjörn­unni
3 Jasmín Erla Inga­dótt­ir, Val
3 Jordyn Rhodes, Tindastóli
3 Sig­dís Eva Bárðardótt­ir, Vík­ingi

Næstu leik­ir:
15.6. FH - Keflavík
15.6. Stjarnan - Þór/KA
16.6. Breiðablik - Þróttur R.
16.6. Fylkir - Valur
16.6. Tindastóll - Víkingur R.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert