Tvö af toppliðunum í Bestu-deild kvenna í fótbolta mættust í dag á Þórsvellinum á Akureyri. Þór/KA tók á móti Breiðabliki í 7. umferðinni. Fyrr í dag hafði Valur unnið Stjörnuna og voru Breiðablik og Valur með 18 stig þegar leikurinn hófst en Þór/KA var með 15.
Norðankonur þurftu nauðsynlega að hirða einhver stig úr leiknum því annars myndi Breiðablik ná sex stiga forskoti á þær. Næði Þór/KA að vinna leikinn með tveggja marka mun þá kæmist liðið í toppsætið. Fór svo að Breiðablik vann 3:0 í ansi daufum leik. Liðið er því enn taplaust í deildinni með fullt hús stiga. Þór KA er í 3. sæti sex stigum á eftir Blikum og þremur stigum á eftir Val.
Bæði lið höfðu skorað mikið á tímabilinu til þessa og mátti allt eins búast við fjölda marka.
Þór/KA þurfti að gera fimm breytingar á byrjunarliði sínu úr síðustu leikjum, vegna meiðsla leikmanna og ferðalaga. Kunni þetta ekki góðri lukku að stýra og voru Breiðablikskonur sterkari í leiknum og meira ógnandi.
Breiðablik byrjaði leikinn mjög vel og strax var þjarmað að heimaliðinu. Lítið var um marktækifæri og smám saman róaðist leikurinn. Eina mark fyrri hálfleiks kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Agla María Albertsdóttir sendi boltann yfir Shelby Money í marki Þórs/KA með skoti eða fyrirgjöf nánast frá endamörkum vallarins. Kom markið á 35. mínútu og sló það heimakonur örlítið út af laginu. Blikakonur létu kné fylgja kviði og reyndu að bæta við marki fyrir hlé. Það tókst ekki og var því staðan 1:0 í hálfleik.
Snemma í seinni hálfleiknum bætti Vigdís Lilja Kristjánsdóttir við öðru marki fyrir gestina, 2:0, og eftir það voru Blikakonur aldrei í neinum vandræðum. Þær spiluðu eins og sá sem valdið hefur en lögðust aðeins aftur á völlinn á köflum.
Þór/KA náði ekki að skapa nein alvöru færi. Þegar leikurinn var að fjara út átti Agla María góðan sprett upp að endamörkum. Hún lagði svo boltann út á Andreu Rut Bjarnadóttur sem gat varla annað en skorað. Í blálokin kom skot í slá frá heimakonum en skömmu síðar var flautað til leiksloka. Niðurstaðan 3:0 sigur Breiðabliks.