„Þetta átti aldrei að vera fallegt“

Ásta Eir gengur ánægð af velli í leikslok
Ásta Eir gengur ánægð af velli í leikslok Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Breiðablik trónir á toppnum í Bestu-deild kvenna í fótbolta eftir enn einn sigurinn í dag. Breiðablik fór norður til Akureyrar og spilaði gegn Þór/KA á grasvelli Þórsara í Þorpinu. Bauð völlurinn ekki upp á þann leiftrandi fótbolta sem bæði lið hafa spilað í sumar.

Fyrirliðinn Ásta Eir Árnadóttir kom í skemmtilegt viðtal eftir leik. Reyndar tóku Blikakonur sér langan tíma inni í búningsklefa til að fagna sigrinum og urðu fréttaritarar að bíða þolinmóðir á meðan.

Jæja Ásta. Það tók sinn tíma að fagna þessum sigri.

„Maður þarf að fagna þessum sigrum, sama hvernig þeir eru og hversu ljótur leikurinn er.“

Þú talar um ljótan leik. Þetta var ekki jafn glimrandi góður fótbolti og maður hefur séð hjá ykkur og Þór/KA í sumar.

„Ég get alla vega sagt að við vissum að völlurinn væri ekki góður og við hverju mátti búast. Við undirbjuggum okkur með það í huga og vorum bara tilbúnar í baráttu og öðruvísi bolta, með löngum spyrnum fram og svoleiðis. Þetta átti aldrei að vera fallegt. Við vitum alveg að við getum spilað góðan fótbolta en stundum þarf maður bara að vinna leiki með því að taka nokkra langa bolta og verjast vel. Við gerðum það bara mjög vel. Grasið á vellinum bauð ekki upp á mikið. Það voru allir að renna til og frá og það voru holur hér og þar. Hann er laus í sér og loðinn. Það er stundum erfitt að fara í Barselóna bolta á svona grasi. Planið okkar gekk bara mjög vel.“

Telma Ívarsdóttir markvörður undir pressu frá Söndru Maríu Jessen í …
Telma Ívarsdóttir markvörður undir pressu frá Söndru Maríu Jessen í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þið byrjuðuð leikinn af krafti og náðuð snemma undirtökum í leiknum. Svo eftir fyrsta markið ykkar þá var fátt sem kom ykkur úr jafnvægi og þetta virtist aldrei í neinni hættu.

„Við ætluðum alltaf að koma inn í alvöru baráttu og það gekk eftir. Mér fannst þetta eiginlega aldrei í hættu og við gáfum engin færi á okkur. Mér leið vel og okkur öllum. Færslunar gengu vel og við vorum mjög þéttar. Þær voru ekkert að komast á bak við okkur.“

Þið fögnuðuð vel inni í klefa og þar virðist vera mikil dagskrá.

„Það er alltaf mikil stemning og við tökum tvö lög. Fyrst er það Blikakórinn sem við syngjum og svo kemur lag og læti. Það er bara mjög gaman. Við viljum klára alla leiki á þessu.“

Það eru komnir sjö sigrar hjá ykkur í sjö leikjum og liðið hefur bara fengið á sig tvö mörk í þeim. Hver er lykillinn?

Nik Chamberlain og Edda Garðarsdóttir, þjálfarar Breiðabliks
Nik Chamberlain og Edda Garðarsdóttir, þjálfarar Breiðabliks Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Við erum búnar að æfa vel og alls konar kerfi. Við erum ekkert endilega að spila bara eitt kerfi. Mér finnst við allar búnar að bæta okkur mikið í varnarleik, alveg frá fremsta manni. Við terystum líka hverri annarri vel og erum að tala vel saman. Við erum líka með frábæra markmenn og þetta gengur vel. Það er erfitt að reyna að brjóta okkur niður.“

Þannig að það hefur gengið vel að skilja þjálfarann, hann Nik.

„Já hann er mjög skýr, ég get alveg sagt þér það. Hann er með skýra hugmyndafræði og þegar hann talar þá hlustum við. Upplýsingarnar fara alveg inn og það eru allir á sömu blaðsíðu.“

Eruð þið með eitthvað snjallforrit sem þýðir það sem hann segir? Framburðurinn er afar skemmtilegur.

Nú skellir Ásta Eir upp úr. „Við erum alveg ágætlega klárar svo við þurfum það ekki.“ Svo bætti hún við í lokin. „Reyndar skilur maður stundum ekkert hvað hann er að segja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert