Keflvíkingar töpuðu í dag fyrir Val í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta eftir hetjulega baráttu sem endaði í vítaspyrnukeppni. Venjulegum leiktíma lauk 2:2 og framlengingu 3:3. Í vítaspyrnukeppninni hafði Valur betur, 5:3.
Keflvíkingar léku án þriggja lykilmanna í dag og undirstrikar það baráttu Keflvíkinga en þeir léku án Sindra Snæ Magnússonar, Sami Kamel og Frans Elvarssonar.
Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var ánægður með liðið sitt þrátt fyrir að vera hundfúll með að detta út í dag þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik.
„Ég er fyrst og fremst svekktur við að vera dottnir út en að leiknum sjálfum þá er ég ánægður með vinnusemina og framlagið.
Við köstuðum öllu hérna fram í lokin og jöfnuðum. Síðan fer þetta í vító og þá er þetta bara 50/50 hvernig leikurinn fer og við töpum í dag," sagði Haraldur spurður út í leikinn.
Það var ekki að sjá að heil deild væri á milli liðanna.
„Nei við auðvitað teljum okkur eiga að vera og viljum vera í deild þeirra bestu. Við erum í næstu deild fyrir neðan og nú fer bara fókusinn á að komast í Bestu deildina og við teljum okkur vera með nógu gott lið til að gera það. Við höfum lagt tvö lið úr Bestu deildinni í bikarnum og vorum nálægt þessu í dag. Við vissum fyrir leikinn að á þessum velli myndi okkur líða vel og við fórum með Val í vító."
Var það reynslan sem munaði um í vítakeppninni?
"Ég veit það ekki. Vító. Við klikkum á einu og þeir engu. Ásgeir var í nokkrum boltum hjá þeim. Vítaspyrnukeppni er bara 50/50 og við töpuðum í dag."
Nú er það bara deildin hjá Keflavík þar sem þið sitjið í fjórða sæti deildarinnar. Hverjir eru möguleikar ykkar á að komast upp?
„Við teljum góða möguleika á að komast upp. Næsti leikur er útileikur gegn Dalvík/Reyni og núna förum við bara í endurheimt og að undirbúa okkur fyrir þann leik,“ sagði Haraldur í samtali við mbl.is.