Kasta peningi upp í loftið

Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valsmenn eru fyrsta liðið til að komast í undanúrslit bikarkeppni karla í fótbolta eftir sigur á Keflavík eftir vítaspyrnukeppni í dag. Leik lauk 3:3 eftir venjulegan leiktíma en Valur vann 5:4 í vítaspyrnukeppninni. 

Arnar Grétarsson þjálfari Vals var ánægður með niðurstöðuna þegar mbl.is náði tali af honum strax eftir leik:

„Fyrst og fremst ánægður með að vera kominn í undanúrslit. Það er í raun aðalatriðið," voru fyrstu viðbrögð Arnars eftir leik.

Áttir þú von á svona spennandi leik í dag?

„Ég átti von á erfiðum leik en var að vonast til að sleppa við þessa dramatík. Keflavík er í bullandi standi, með mikið sjálfstraust. Þeir unnu Breiðablik og unnu ÍA. Þannig að fyrirfram bjóst ég alveg við erfiðum leik."

Kasta peningi upp í loftið

Spurður út í leikinn sjálfan sagði Arnar þetta:

„Mark 1 og mark 3 hjá þeim var alltof ódýrt. Við hefðum alveg getað sleppt því að fara með þetta í vítaspyrnukeppni því þar ertu bara að kasta peningi upp í loftið og vonast eftir góðri niðurstöðu. En þar erum við með Frederik Schram sem er geggjaður í vítum.

En ég er bara ánægður með að vera kominn áfram. Núna getum við aðeins notið þessarar stundar með nokkurra daga pásu en síðan er það bara stórleikur gegn Víkingum heima. Það er bara spennandi."

Eitthvað sem kom þér á óvart í leik Keflavíkur í dag?

„Nei ég er búinn að fylgjast mikið með þeim og þetta er bara mjög gott lið. Við spiluðum við þá tvisvar sinnum í fyrra og hefðum viljað fá fleiri stig þar. Við gerðum jafntefli við þá í báðum leikjunum í fyrra líkt og við gerðum í dag.

Síðan þegar þú ert í bikar þá er það allt annað dæmi. Mér fannst við samt vera með undirtökin í fyrri hálfleik, sköpum færi og skorum mark. Þeir byrja síðan vel í síðari hálfleik og komast yfir. Þetta var bara ekta bikarslagur, hádramatískur og ég þarf bara smá tíma til að ná mér niður."

Frábær í fótbolta

Gylfi Sigurðsson kemur inn á undir lok venjulegs leiktíma og maður sá strax gæðin sem fylgdu hans sendingum og spili. Er hann alveg kominn til baka núna?

„Við ætluðum ekki að spila honum svona mikið. Hann er að taka hátt í hálfleik í ljósi þess að þetta fór í framlengingu. Núna eru 9 dagar í leikinn gegn Víkingum og hann er bara á réttri leið. Fínt að fá hann til baka.

Hann er frábær í fótbolta og við sáum nokkra snúninga frá honum og sendingar. Ég veit ekki alveg stöðuna á Orra Sigurði. Hólmar kemur úr banni fyrir næsta leik og vonandi Aron líka."

Þannig að Valsmenn verða fullmannaðir gegn Víkingum í næsta leik?

„Já ég á frekar von á því. Ég veit ekki alveg stöðuna á Orra Sigurði og Aroni. Þeir eru smá spurningamerki en ég á frekar von á því að þeir verði klárir," sagði Arnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert