Valur í undanúrslit eftir vítaspyrnukeppni

Tryggvi Hrafn Haraldsson með boltann í leik liðanna á síðasta …
Tryggvi Hrafn Haraldsson með boltann í leik liðanna á síðasta tímabili. mbl.is/Óttar Geirsson

Keflavík og Valur áttust við í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta í dag og lauk leiknum með sigri Valsmanna eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni. Staðan var 3:3 eftir framlengingu og vann Valur 5:3 í vítaspyrnukeppni. Leikið var á Keflavíkurelli í Reykjanesbæ.

Valsmenn áttu mun fleiri færi í fyrri hálfleik og voru oft nálægt því að skora en þökk sé góðri vörn Keflavíkur og þá sérstaklega markvörslum Ásgeirs Þórs Magnússonar í marki Keflavíkur náðu Valsmenn ekki að koma boltanum inn fyrr en á 33. mínútu þegar Patrick Pedersen skoraði eftir klaufagang í vörn Keflavíkur. Staðan 1:0 fyrir Val.

Á 38. mínútu jöfnuðu Keflvíkingar með marki frá Ásgeiri Páli Magnússyni eftir misheppnaða hreinsun hjá Valsmönnum. Staðan 1:1 og voru það hálfleikstölur.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað og gerðist í raun ekkert markvert fyrr en á 56. mínútu þegar Dagur Ingi Valsson skoraði eftir baráttu inni í vítateig Valsmanna. Valur Þór Hákonarson skaut tvisvar sinnum að marki Vals en varnarmenn vörðust skotunum. Í síðara skotinu barst boltinn til Dags Inga sem skaut rétt utan vítateigs í bláhornið nær og skoraði. Staðan 2:1 fyrir Keflavík.

Á 68. mínútu jöfnuðu Valsmenn leikinn. Þá gaf Kristinn Freyr Sigurðsson boltann fyrir markið og þar setti Gunnlaugur Fannar Guðmundsson boltann í eigið mark í tilraun sinni til þess að koma boltanum frá en Patrick Pedersen var í bakinu á honum, tilbúinn til að setja boltann yfir marklínuna. Staðan 2:2.

Þess ber að geta í lið Keflavíkur vantaði þrjá lykilmenn. Frans Elvarsson, Sindri Snær Magnússon og Sami Kamel voru allir fjarri góðu gamni í dag. 

Á 83. mínútu leiksins kom Gylfi Þór Sigurðsson inn á hjá Valsmönnum í staðinn fyrir Bjarna Mark Antonsson. 

Annað markvert gerðist ekki í síðari hálfleik og lauk venjulegum leiktíma með jafntefli, 2:2, og því þurfti að framlengja. 

Valsmenn byrjuðu framlenginguna og á 93. mínútu komst Gylfi Þór Sigurðsson í mjög álitlegt færi þegar hann sólaði sig í gegnum vörn Keflavíkur og skaut í átt að fjærhorni marks Keflavíkur en boltinn rétt framhjá.

Á 97. mínútu fengu Keflvíkingar hálffæri þegar Dagur Ingi fékk frítt skot utan teigs en boltinn langt yfir. Í sömu andrá brunuðu Valsmenn upp í sókn. Þar var á ferðinni Adam Ægir Pálsson sem brunaði upp vinstri kantinn, gaf boltann fyrir og þar var Jónatan Ingi Jónsson sem tók við boltanum og skoraði laglegt mark. Staðan 3:2 fyrir Val.

Á 101. mínútu fékk Mamadou Diaw alvöru færi eftir hornspyrnu en skot hans framhjá. Illa farið með mjög gott færi.

Staðan í hálfleik framlengingar 3:2 fyrir Valsmenn.

Það gerðist nákvæmlega ekkert markvert í síðari hálfleik framlengingarinnar fyrr en á 120. mínútu þegar Keflavík jafnaði leikinn. Það gerði Gabríel Aron Sævarsson eftir langt innkast. 

Stuttu síðar flautaði Pétur Guðmundsson til leiksloka og vítaspyrnukeppni framundan.

Það voru síðan Valsmenn sem unnu vítaspyrnukeppnina 5:3 en Keflvíkingar þurftu ekki að taka síðasta vítið sitt og fara Valsmenn áfram í undanúrslit eftir sigur, samanlagt 8:6.

Keflavík 6:8 Valur opna loka
121. mín. Kári Sigfússon (Keflavík) skorar úr víti SVELLKALDUR!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert