„Ég tel að það hafi verið mikið um þreytta fætur á vellinum,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, eftir 4:0-tap fyrir Hollandi í vináttulandsleik í Rotterdam í kvöld.
„Það er mjög erfitt að spila á móti tveimur góðum landsliðum á stuttum tíma. Það voru aðeins tveir dagar á milli.
Það var eitt en annað var að okkur vantar leikmenn í miðvarðarstöðuna, sem eru frá vegna meiðsla. Við höfum ekki úr mörgum leikmönnum að velja í þá stöðu.
Það veldur mér satt að segja miklum áhyggjum. Ég vona að allir verði heilir heilsu fyrir leikina í haust. Við verðum að taka með okkur leikinn gegn Englandi.
Þessi leikur reyndist okkur of erfiður vegna þeirra vandamála sem steðjuðu að okkur fyrir hann,“ bætti Hareide við í samtali við Stöð 2 Sport eftir leik.
Miðvörðurinn Daníel Leó Grétarsson átti stórleik í 1:0-sigri Íslands á Englandi á föstudagskvöld en gat ekki tekið þátt í leiknum í kvöld vegna meiðsla. Í hans stað kom Valgeir Lunddal Friðriksson í miðvarðarstöðuna.
„Hann hefur spilað í þessari stöðu fyrir U21-árs landsliðið í þriggja miðvarða kerfi en hann býr yfir hraða og hæð og þess vegna ákváðum við að hafa hann í byrjunarliðinu.
[Brynjar Ingi] Bjarnason hefur verið á varamannabekknum hjá HamKam þannig að honum skortir svolítið mínútur. Valgeir hefur spilað vel fyrir Häcken, í bakvarðarstöðunni að vísu, en þegar þú spilar svæðisvörn skiptir það í raun ekki máli.
Þú ættir að þekkja svæðið þitt og vita hvað þú átt að gera. Við getum ekki kennt honum um, frammistöðu hans, ég valdi hann í liðið og tek það á mig. Mér fannst þetta meira snúa að því að við urðum þreyttir, við höfðum ekki þessa fersku fætur sem við vorum með á Wembley.
Holland er á sínum heimavelli og vann Kanada einnig 4:0. Þeir eru með mikið sjálfstraust og sóttu mikið, sem olli okkur vandræðum,“ sagði Norðmaðurinn.
Hann hrósaði spræku hollensku liði en fannst íslenska liðið gera því of auðvelt fyrir.
„Þetta er svo sannarlega gott lið. Við gáfum þeim samt of mikið pláss. Þegar við erum ekki með fæturna til þess að hreyfa okkur nógu mikið fá þeir meira pláss og þeir eru góðir í að nýta sér þetta pláss.
Þeir komust líka of auðveldlega í gegnum okkur með hlaupum sínum fyrir aftan vörnina. Sumir hlutir sem við gerðum varnarlega voru ekki góðir. Það er alltaf þannig þegar þú tapar.
Við verðum þó að taka það jákvæða með okkur úr þessu verkefni. Við erum búnir að spila tvo erfiða leiki og unnum annan þeirra. Við tökum það með okkur fyrir leikinn gegn Svartfjallalandi,“ sagði Hareide að lokum.