Fór mikil orka í leikinn á föstudag

Jóhann Berg Guðmundsson er fyrirliði Íslands og hér er byrjunarlið …
Jóhann Berg Guðmundsson er fyrirliði Íslands og hér er byrjunarlið kvöldsins. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta er svekkjandi. Þetta var auðvitað gríðarlega erfiður leikur,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði Íslands, eftir 4:0-tap fyrir Hollandi í vináttulandsleik í knattspyrnu í Rotterdam í kvöld.

„Það fór mikil orka í leikinn á föstudaginn og tveir dagar á milli leikja. Þetta var mjög erfitt og þeir spiluðu nokkuð vel.

Þeir fundu mikið af glufum á bak við okkur sem við hefðum átt að fást betur við. En svona var þetta og við lærum af þessum leik eins og við lærum af öllum leikjum.

Þetta var vináttuleikur eins og við vissum. Við tökum það góða og það slæma líka úr þessu og lærum af því,“ sagði Jóhann í samtali við Stöð 2 Sport eftir leik.

Fundu veikleika okkar

Spurður hvað hafi verið öðruvísi hjá íslenska liðinu samanborið við 1:0-sigur þess á Englandi á föstudagskvöld kvöld sagði hann:

„Þeir yfirmönnuðu kantana mjög vel og við náðum ekki að pressa þessar fyrirgjafir sem voru að koma inn í teiginn hjá okkur.

Við náðum ekki að fást við það. Þeir fundu veikleikana hjá okkur og það er eitthvað sem við þurfum að laga.“

Var ekki þannig í dag

Hvað er það sem þið takið með ykkur úr þessum leik?

„Þegar við spilum erum við mjög góðir á boltanum. Mér fannst við vera smá kærulausir á boltanum, áttum lélegar fyrstu snertingar og þá ertu kominn í vesen.

Á móti svona þjóðum þarf allt að vera upp á tíu og það var ekki þannig í dag. Ef það er léleg snerting hér eða þar þá eru þeir komnir strax í andlitið á þér. Það er eitthvað sem við þurfum að læra af,“ sagði Jóhann að lokum.

Jóhann Berg Guðmundsson hitar upp fyrir leikinn í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson hitar upp fyrir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert