Breiðablik og Valur auðveldlega í undanúrslit

Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Breiðablik vann öruggan sigur á Keflavík, 5:2, þegar liðin mættust í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. Valur vann þá 1. deildar lið Grindavíkur auðveldlega, 6:0, í Safamýri.

Breiðablik gerði út um leik sinn gegn Keflavík á rúmum stundarfjórðung en staðan var orðin 3:0 eftir aðeins 17 mínútna leik.

Katrín Ásbjörnsdóttir braut ísinn eftir tveggja mínútna leik og hin finnska Anna Nurmi tvöfaldaði forystuna á tíundu mínútu.

Barbára Sól Gísladóttir skoraði svo þriðja markið á 17. mínútu. Staðan í hálfleik var því 3:0.

Snemma í síðari hálfleik, á 54. mínútu, minnkaði Keflavík muninn þegar Melanie Forbes komst á blað.

Stuttu síðar fékk Breiðablik hins vegar vítaspyrnu. Katrín steig á vítapunktinn og skoraði annað mark sitt og fjórða mark Blika á 63. mínútu.

Á lokamínútunni skoraði Vigdís Lilja Kristjánsdóttir fimmta mark Breiðabliks.

Skömmu síðar fékk Keflavík vítaspyrnu. Úr henni skoraði Saorla Miller og fór Breiðablik því með þriggja marka sigur af hólmi.

Sex marka sýning

Valur sýndi mátt sinn og megin gegn Grindavík og var 2:0 yfir í leikhléi eftir að Ísabella Sara Tryggvadóttir og Nadía Atladóttir höfðu komist á blað.

Í síðari hálfleik bætti Nadía Atladóttir við öðru marki sínu, Jasmín Erla Ingadóttir skoraði tvívegis auk þess sem Berglind Rós Ágústsdóttir komst á blað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert