Þór/KA hafði betur gegn FH, 1:0, þegar liðin áttust við í fyrsta leik átta liða úrslita bikarkeppni kvenna á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í kvöld.
Norðankonur eru því fyrsta liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitum keppninnar.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom markahrókurinn Sandra María Jessen inn á sem varamaður í leikhléi og þurfti ekki langan tíma til að setja mark sitt á leikinn.
Hún skoraði strax á 48. mínútu með góðu vinstri fótar skoti eftir að FH-ingum reyndist erfitt að koma boltanum frá.
Heimakonur í FH fengu reyndar kjörið tækifæri til þess að jafna metin eftir tæplega klukkutíma leik þegar vítaspyrna var dæmd eftir að Lidija Kulis felldi Breukelen Woodard innan vítateigs.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir steig á vítapunktinn en Shelby Money í marki Þórs/KA gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.