Tuska í andlitið - fáir sem sáu pabba spila

Adam Örn Arnarson í baráttu við Hallgrím Mar Steingrímsson á …
Adam Örn Arnarson í baráttu við Hallgrím Mar Steingrímsson á KA-vellinum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Adam Örn Arnarson, leikmaður Fram, var heldur súr eftir að lið hans hafði verið slegið út úr bikarkeppninni í kvöld.

KA vann Framara nokkuð sannfærandi á Akureyri í glampandi sól og miklum hita. Lokatölur leiksins urðu 3:0 en KA leiddi lengstum með einu marki. Adam Örn kom í viðtal eftir leik.

„Þetta var skellur. Við ætluðum auðvitað áfram í þessari keppni. Við vorum alveg með það á hreinu. Það var kannski ekki að sjá á okkur í fyrri hálfleik. Hann var dapur hjá okkur. Og þótt við höfum fengið tvö mörk á okkur í seinni hálfleik þá var hann mun betri hjá okkur.

Við ræddum bara málin inni í klefa í hálfleik. Í síðustu leikjum okkar þá höfum við verið að byrja mjög hægt. Það er erfitt þegar maður þarf alltaf að vera að koma til baka. Við þurfum bara að horfa í augum á hverjum öðrum og bara byrja leikina. Það gerir allt léttara.“

Staðan var 1:0 í hálfleik eftir að KA hafði skorað strax á 6. mínútu. KA-menn hefðu alveg getað skorað meira í fyrri hálfleiknum og þegar annað mark þeirra kom á 78. mínútu þá voru Framarar búnir að vera mikið með boltann og KA lá aftarlega á vellinum.

Þið voruð byrjaðir að þjarma aðeins að KA þegar þeir skora mark númer tvö.

„Við vorum vissulega að spila töluvert betri seinni hálfleik. Vorum þó ekki að skapa mikið. Mér leið samt eins og við værum að fara að gera eitthvað enda nægur tími eftir. Síðan fáum við tusku í andlitið, sem gerði þetta erfitt. Fótboltinn er duglegur að refsa.“

Ef við komum aðeins að þér. Í dag varstu að spila hægra megin í þriggja manna varnarlínu. Hefur þú alltaf verið í varnarhlutverkum?

„Ég hef mest verið í bakverðinum í meistaraflokki. Að vera hægra megin í þriggja manna hafsentakerfi passar mér líka bara vel. Þetta er ekkert ósvipuð staða og mér líður vel þar. Ég get alveg leyst ýmsar stöður í þessu kerfi og geri bara það sem ég er beðinn um hverju sinni.“

Örn Örlygsson var hörku sóknarmaður

Nú var faðir þinn ekki mikill varnarmaður heldur alvöru markaskorari hér í eina tíð í neðri deildunum. Er það ekki sóun á hæfileikum að hafa þig í vörninni með sóknargenin frá honum?

Nú getur Adam ekki annað en glott almennilega. „Ég hlýt að hafa fengið sóknarhæfileika mína frá honum. Það eru bara svo margir góðir leikmenn í þessu liði og ég get alveg verið í því að verjast. Maður tekur það bara á sig. Pabbi fær áfram að segja sögurnar frá því í gamla daga.“

Þú vilt ekkert vera að varpa skugga á þær sögur með einhverjum tilburðum framar á vellinum.

„Nei. Ég gef honum bara sviðsljósið þar. Ég held að fáir hafi séð hann spila til að staðfesta sögurnar.“

Ég get nú alveg staðfest það að hann hafi verið helvíti lunkinn þarna frammi.

„Ég verð þá bara að trúa því ætla ekki að taka það af honum. Og nú kem ég því út í kosmósinn að Örn Örlygsson var hörku sóknarmaður“ sagði pilturinn, eflaust létt að fá loks sannfæringu um að faðir hans væri ekki að segja honum lygasögur af afrekum sínum í framlínu SM, liði Skriðuhrepps og Möðruvallasóknar í Eyjafirði, í 4. deildinni seint á síðustu öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert