Akureyringurinn Sandra María Jessen skoraði sitt 100. mark í efstu deild hér á landi er hún jafnaði í 1:1 fyrir Þór/KA gegn Stjörnunni í Bestu deildinni í fótbolta í Garðabænum í dag.
„Ég vissi af því. Það var svekkjandi að ná ekki markinu á móti Breiðabliki en að sama skapi mjög gott að ná því í dag. Það er frábært að það hafi komið í sigurleik. Þetta er rosalega stórt fyrir mig.
Ég náði 100 mörkum fyrir félagið fyrir tveimur árum en mig langaði að ná því í deildinni líka. Þetta er skemmtilegur dagur sem ég mun alltaf muna eftir. Ég er með blóm og súkkulaði og fer brosandi heim,“ sagði Sandra við mbl.is eftir leikinn, sem endaði 4:1 fyrir Þór/KA.
Stjarnan komst í 1:0 en Þór/KA var mun sterkari aðilinn eftir 100. mark Söndru, en hún gerði sitt 101. mark í seinni hálfleiknum.
„Mér fannst við lengi í gang og vorum svolítið eftir á í pressunni. Þegar leið á leikinn bættum við það og mættum rosalega sterkar inn í seinni hálfleikinn og áttum leikinn frá A-Ö. Við héldum áfram að leita í svæði þar sem hægt er að finna veikleika hjá þeim. Við þorðum meira, pressuðum betur og sýndum hvað við höfum bætt okkur í að halda í boltann. Það er frábært að ná góðum spilköflum og góðum mörkum.
Við erum klárlega á réttri leið og það er gaman að sjá skrefin upp á við. Við höfum verið þekktar fyrir að vera með gott skyndisóknarlið en við höfum verið að bæta okkur í að halda í boltann. Það er að skila sér að treysta á okkar ungu og efnilegu leikmenn. Það eru stelpurnar sem eru að standa sig og eru ástæðurnar fyrir þessum árangri,“ sagði Sandra.