Ég vil ekki ræða það meira

Hildur Anna Birgisdóttir úr Þór/KA og Úlfa Dís Kreye Úlfasdóttir …
Hildur Anna Birgisdóttir úr Þór/KA og Úlfa Dís Kreye Úlfasdóttir hjá Stjörnunni eigast við í dag. mbl.is/Óttar

„Mér fannst við undir allan leikinn, þrátt fyrir að við höfum skorað fyrsta markið,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir tap, 1:4, gegn Þór/KA í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag.

„Við fáum á okkur tvö horn. Það er misskilningur í fyrra horninu og í seinna horninu erum við allt of lin, eins og í leiknum sjálfum,“ sagði Kristján en staðan í hálfleik var 1:1. Þór/KA skoraði svo tvö mörk strax í upphafi seinni hálfleiks eftir horn.

„Í dag fannst mér þetta munurinn á liðunum. Það var ásættanlegt fyrir okkur að fara með 1:1 í hálfleik þótt við fengum tækifæri til að komast í 2:0. Leikurinn var vel útfærður hjá Akureyrarliðinu og mun betur en hjá okkur. Við vildum bregðast við í seinni en það tókst ekki,“ sagði Kristján.

Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Stjarnan hefur aðeins unnið þrjá leiki af fyrstu átta í deildinni á tímabilinu, enda með mjög mikið breytt lið frá því í fyrra og margir mjög ungir leikmenn í stórum hlutverkum í dag.

„Það er augljóst að það urðu allt of miklar breytingar á leikmannahópnum til að þetta myndi smella 1,2 og 3. Við þurfum að einbeita okkur að því að vinna réttu leikina, halda stemningunni og þróttinum.

Við erum með marga unga leikmenn og erum að endurræsa liðið og hópinn og það má deila um hvers vegna það gerðist. Það eru mismunandi ástæður fyrir því að margir leikmenn fara. Við bregðumst við með að sækja fáa leikmenn og þess vegna er staðan svona og ég vil ekki ræða það meira,“ sagði Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert