Gamla ljósmyndin: Í flugstjórnarklefanum

Úr safni Morgunblaðsins

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þegar líða fór að Íslandsmótinu í knattspyrnu vorið 1988 var ákveðið að fljúga yfir heimavelli liðanna sem léku í efstu deild meðal annars með það fyrir augum að kynna deildina. Var tveimur leikmönnum úr hverju liði boðið í útsýnisflugið ásamt fjölmiðlamönnum. 

Í flugstjórnarklefanum situr enginn annar en Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ og þá ungur og upprennandi leikmaður KA. Var þá verið að fljúga yfir Akureyrarvöll og höfuðstaður Norðurlands þakinn snjó. 

Þorvaldur virðist vera að gera sig líklegan til að flytja farþegum einhverjar fréttir í eða fróðleik af því sem fyrir augu bar. Ósennilegt þykir að Þorvaldur hafa þarna notað tækifærið til að lýsa yfir framboði til formanns KSÍ 36 árum síðar. 

Myndin leyndist í myndasafni Morgunblaðsins en þrír ljósmyndarar blaðsins voru um borð í vélinni og nýttu tækifærið til að mynda. Allir vel kunnir áskrifendum blaðsins í gegnum tíðina: Ragnar Axelsson eða RAX, Sverrir heitinn Vilhelmsson og Þorkell Þorkelsson. 

Ári síðar eða 1989 kom KA mjög á óvart og varð Íslandsmeistari undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar. Þorvaldur Örlygsson var jafnframt valinn leikmaður ársins á lokahófi KSÍ og hafnaði í 10. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Í framhaldinu hélt hann í atvinnumennsku til Nottingham Forest og varð fjórði Íslendingurinn til að leika í efstu deild á Englandi. Þar lék hann einnig með Stoke City og Oldham en hér heima lék Þorvaldur einnig með Fram. 

Þorvaldur lék 41 A-landsleik fyrir Ísland og skoraði 7 mörk. Skoraði hann til að mynda í frægum 2:0 sigri á Spáni í undankeppni EM 1992. 

Þorvaldur fór síðar út í þjálfun og stýrði karlaliðum KA, Fjarðabyggðar, Fram, ÍA, HK, Keflavíkur og Stjörnunnar auk U19 ára landsliðsins. 

Í febrúar var Þorvaldur kjörinn formaður Knattspyrnusambands Íslands. 

Frá því myndin var tekin hefur margt breyst þegar kemur að öryggiskröfum í flugferðum með farþega. Mbl.is spáir því að Þorvaldur verði síðasti formaður KSÍ sem myndaður verði í flugstjórnarklefa í miðju flugi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert