Tímamótamark Söndru í sigri Þórs/KA

Liðsmenn Þórs/KA fagna marki í dag.
Liðsmenn Þórs/KA fagna marki í dag. mbl.is/Óttar

Þór/KA gerði góða ferð í Garðabæinn og vann Stjörnuna, 4:1, í áttundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Með sigrinum fór Þór/KA upp í 18 stig og upp að hlið Vals í öðru sæti. Stjarnan er áfram í fimmta með níu stig.

Stjörnukonur byrjuðu betur og sóttu nokkuð fyrstu mínúturnar. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 6. mínútu er Hrefna Jónsdóttir skoraði af stuttu færi, sitt fyrsta mark í efstu deild.

Caitlin Cosme var nálægt því að tvöfalda forskotið skömmu síðar en hún skallaði rétt framhjá eftir langt innkast.

Eftir það náðu gestirnir fínum völdum á leiknum og sókn þeirra skilaði árangri á 30. mínútu er Sandra María Jessen jafnaði þegar hún stýrði boltanum í netið eftir skot frá Agnesi Birtu Stefánsdóttur. Var markið það 100. sem hún skorar í efstu deild.

Gestirnir voru sterkari eftir það en tókst ekki að skora annað mark og var staðan í hálfleik því 1:1.

Staðan var orðin 2:1 fyrir Þór/KA á 47. mínútu er Hildur Anna Birgisdóttir skoraði beint út hornspyrnu, sitt fyrsta mark í efstu deild. Hún kom inn á fyrir seinni hálfleikinn og var ekki lengi að láta af sér kveða.

Aðeins tveimur mínútum síðar var Hildur aftur á ferðinni með annað horn. Þá spyrnti hún boltanum á Margréti Árnadóttur sem skoraði af stuttu færi í teignum og staðan skyndilega orðin 3:1 fyrir Þór/KA.

Sandra María gerði sitt annað mark og fjórða mark Þórs/KA á 69. mínútu er hún potaði boltanum í netið af stuttu færi eftir sendingu frá Amalíu Árnadóttur sem var nýkomin inn á sem varamaður.

Stjörnukonur voru ekki líklegar til að minnka muninn eftir það á meðan gestirnir voru sáttir við þriggja marka forskot og varð 4:1-sigur Þórs/KA því raunin.

Stjarnan 1:4 Þór/KA opna loka
90. mín. Hildur Anna liggur eftir og er eitthvað meidd. Hún fær aðhlynningu og leikurinn er stöðvaður. Hildur virðist vera í lagi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert